Íhaldskonur og karlar fjandsamlegri á Twitter

Karen Ross er fyrsti prófessorinn í Bretlandi með kyn og …
Karen Ross er fyrsti prófessorinn í Bretlandi með kyn og fjölmiðla sem sérstakt áherslusvið. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Aðalmunurinn milli karla og kvenna á Twitter er að konur er kurteisari en karlar eru fjandsamlegri (e. hostile). Konur eru líklegri til að tísta um mjúk stefnumál, til dæmis í tengd fjölskyldu, börnum og fátækt heldur en karlar. Að því sögðu þá er hegðunin einnig breytileg milli flokka. Þessir tveir þættir skýra að hluta til breytileikann í samræðu á Twitter,“ sagði Karen Ross, prófessor í kynja-og fjölmiðlafræði í samtali við mbl.is. 

Ross hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag á vegum Stjórnmálafræðideildar og Rannsóknarseturs í fjölmiðla- og boðskiptafræðum. Í fyrirlestrinum er greint frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar á twitter hegðun breskra stjórnmálamanna í aðdraganda þingkosninganna í Bretlandi 2015 og skoðað hvort og hvernig kyn birtist í þeim samskiptum.

„Ég vildi skoða hvernig stjórnmálamenn nota Twitter á meðan kosningaherferð stendur, hvernig karlar og konur nota Twitter með ólíkum hætti, sýnileika stjórnmálamanna á Twitter og áhrif þess og að lokum hvort að karlar og konur noti sama samræðustíl eins og á öðrum samskiptavettvöngum.“

Íhaldið fjandsamlegra

Karen Ross er prófessor við Newcastle háskóla, og jafnframt fyrsti prófessor í Bretlandi með kyn og fjölmiðla sem sérstakt áherslusvið. Rannsóknir hennar beinast að flóknum tengslum kyns, fjölmiðla, stjórnmála og frétta og hefur hún gefið út fjölda bóka. Í rannsókn hennar komu í ljós skýr hegðunarskil eftir því hvaða stjórnmálaskoðanir fólk hefur. 

„Við komumst að því að þrátt fyrir að menn væru fjandsamlegri en konur þá eru íhaldssamar konur jafnframt fjandsamlegri en frjálslyndar konur [kjósendur Íhaldsflokksins í samanburði við kjósendur Verkamannaflokksins, innskot blaðamanns]. Við skoðuðum hegðun hjá meðlimum allra flokkanna og sáum mikinn mun, eins og til dæmi hvað er tístað um. Caroline Lucas, þingmaður Græningja í Bretalands, var líklegri til að tísta um umhverfismál heldur konur í verkamannaflokknum, sem voru líklegri til gagnrýna ríkisstjórnina. Samræðumynstrið á Twitter er eins og maður myndi búast við á öðrum sviðum.“

Ónýtt tækifæri

Ross segir jafnframt að stjórnmálamenn séu ekki að nýta þá möguleika sem Twitter búi yfir. Þeir ættu að leggja meiri áherslu á endurtíst (e. retweet) á því sem þeir pósta til að auka sýnileika. 

„Á Twitter er mögulegt að margfalda skilaboð. Ef ég væri stjórnmálamaður og tísti um eitthvað þá vildi ég að allir fylgjendur mínir myndu endurtísta því til að auka sýnileika. Það er hinsvegar ekki að gerast. Stjórnmálamenn eru heldur ekki að notfæra sér samræðutæknina með því að skiptast á orðum við aðra notendur. Vanalega svara þeir einu sinni en ekki í annað sinn, það er engin samræða.“ 

Vegna allra ónýttu tækifæranna á Twitter telur Ross að samskiptamiðillinn sé ekki ráðandi þáttur í niðurstöðu kosninga, hann sé fremur eintal milli stjórnmálamanna og fjölmiðla. 

„Ég held að Twitter hafi ekki mikil áhrif. Það sem gerist er að það eru fullt af stjórnmálamönnum og fullt af fjölmiðlamönnum að tala hver við annan. Þetta hafa rannsóknir sýnt fram á. Það eru einfaldlega engin tengsl á milli fjölda tísta og niðurstöðu kosninga. Til þess að Twitter hafi áhrif þá þurfa fylgjendur þínir að geta kosið þig. Þess vegna tapaði George Galloway þrátt fyrir að hafa um 270.000 fylgjendur.“

Þá segir Ross að hægt sé að byggja frekar á rannsóknum hennar og leggur til að þýðið verði stækkað og breikkað til að fá nákvæmari niðurstöðu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert