Ástin á tímum neyslunnar

Ástfangið par.
Ástfangið par. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hvað er ást? Og hvernig er ástin kynnt fyrir okkur í gegnum bókmenntir og kvikmyndir þannig að hún verður eftirsóknarverð fyrir okkur að öðlast?“ Að þessu spyrja þær Silja Bára Ómarsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir í erindi sínu „Ástin á tímum neyslunnar“ í Þjóðarspegli Háskóla Íslands.

Þjóðarspegillinn er ráðstefna í félagsvísindum sem haldinn er við HÍ í október á ári hverju.

Silja bendir á að við vitum hvernig kynlíf er markaðssett en hvað með ástina?

„Við vitum að ástin er í París. Við vitum að það er ást að gefa síðasta rólóið; blóm þýða ást og svo framvegis. Við erum öll með okkar hugmyndir og forrit í huganum sem segja okkur að þetta eða hitt þýðir ást. Einhverra hluta vegna á það alltaf að verða eftirsóknarvert í okkar huga að öðlast en það er verið að selja okkur hugmyndir um að svo sé,“ segir Silja. 

Stofnuðu Hið íslenzka ástarrannsóknarfélag

Erindið Silju og Brynhildar verður eitt af mörgum í málstofu hins nýstofnaða félags, Hins íslenzka ástarrannsóknarfélags. Þar verður ástin skoðuð út frá ólíkum sjónarhornum og meðal annars fjallað um rómantíska ást, móðurást og mikilvægi tilfinninganna, svo fátt eitt sé nefnt.  

Að Hinu íslenzka ástarrannsóknarfélagi stendur nokkur fjöldi kvenna sem nema og starfa við HÍ, með bakgrunn í heimspeki, kynjafræði, sagnfræði, menntunarfræði, fötlunarfræði, sálfræði og stjórnmálafræði, svo dæmi séu tekin.

Markmið félagsins er að skoða ástina út frá fjölbreyttu sjónarhorni. Konurnar ákváðu að stofna félagið eftir að Anna Guðrún Jónasdóttir hlaut heiðursdoktorsnafnbót Háskóla Íslands frá stjórnmálafræðideild í fyrra. Hún var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi í stjórnmálafræði.

„Eitt af því sem Anna Guðrún hefur lagt áherslu á er ástarkraftur og hvernig ástin er nauðsynleg í nútímasamfélagi til að halda samfélögum gangandi. Við erum nokkrar sem höfum mikinn áhuga á þessu og því ákváðum við að stofna þetta félag,“ segir Silja.

Silja Bára Ómarsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert