Margir þjóðfræðingar búsettir á Ströndum

Jón nokkuð ábúðarfullur á Galdrasafninu á Hólmavík.
Jón nokkuð ábúðarfullur á Galdrasafninu á Hólmavík.

Töluvert af rannsóknarefni í þjóðfræði er á Ströndum, þar er óvenjulega mikið til af efni sem konur hafa skrifað, minningarþættir og þjóðháttalýsingar, sem og lýsingar á daglegu lífi fyrr á öldum.

Á Ströndum hefur líka verið mikil hefð fyrir dagbókarskrifum. Rannsóknasetur í þjóðfræði sem stofnað var sl. haust á því vel heima á Ströndum og fræðimennirnir ætla að stofna með sér félag á þessu ári.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa var stofnað í september síðastliðnum á grunni Þjóðfræðistofu sem var þar áður starfrækt. Jón Jónsson, verkefnastjóri Rannsóknasetursins, segir margt spennandi framundan og búið sé að leggja drög að allskonar samvinnuverkefnum og rannsóknir farnar af stað. Beint samstarf er við þjóðfræðiskor Háskóla Íslands og verður jafnvel boðið upp á lotukennslu í Rannsóknasetrinu.

Jón segir að Rannsóknasetur í þjóðfræði gæti ekki verið betur staðsett en á Ströndunum. „Ég hugsa að það sé enginn staður á landinu þar sem eru hlutfallslega fleiri þjóðfræðingar búsettir. Það er dálítill vísir að rannsóknarsamfélagi hér á þessu sviði, og svo eru sagnfræðingar og fornleifafræðingur og annað menntafólk líka. Þessir fræðingar hafa hlaðist upp hér til að byrja með í kringum Galdrasýninguna. Svo er þetta dálítið eins og með listamenn sem draga að sér aðra listamenn, þjóðfræðingarnir hlaða utan á sig öðru fólki þegar þeir eru að vinna að rannsóknum, það hefur aðdráttarafl fyrir aðra. Svo hafa hlaðist í kringum söfnin sem eru hérna allskonar verkefni á þessu sviði eins og í kringum Galdrasýninguna og Sauðfjársetrið. Þannig að þjóðfræðingar eiga vel heima hérna.“

Hefð fyrir dagbókarskrifum

Jón segir töluvert af rannsóknarefni í þjóðfræði á svæðinu. „Hér er heilmikið af gömlum heimildum. Það er óvenjulega mikið af því að konur hafi skrifað efni, eins og minningarþætti og þjóðháttalýsingar, lýsingar á daglegu lífi fyrr á öldum. Það hefur líka verið mikil hefð hérna fyrir dagbókarskrifum svo menn komast dálítið nálægt hversdagslífi í gegnum þessar heimildir sem eru héðan af svæðinu.“

Jón kveðst vera viss um að það hafi verið meiri hefð fyrir dagbókarskrifum á Ströndum en annars staðar á landinu.

„Ég held að dagbókarskrifin hljóti að hafa verið smitandi og að einhverju leyti vinsæl vegna nálægðar við Ólafsdalsskólann sem var í Gilsfirði í kringum aldamótin 1900. Þar var það kennt að halda utan um hversdagslífið og skrifa niður veðurfar og stöðu mála í allskonar búskaparháttum.“

Stofnun tafðist vegna veðurs

Fljótlega á nýja árinu er ætlunin að stofna fræðifélag á Ströndum en það er Rannsóknasetrið sem stendur fyrir því. „Það á að reyna að búa til félagsskap í kringum þessa fræðimenn sem eru starfandi hérna, skapa þverfaglegan vettvang fyrir samvinnu og samræðu því menn eru kannski fastir í sínum rannsóknum. Við ætluðum að stofna það á milli jóla og nýárs en það tafðist út af veðri,“ segir Jón.

Fallegur bær og húsið með torfþakinu fyrir miðri mynd hýsir …
Fallegur bær og húsið með torfþakinu fyrir miðri mynd hýsir Galdrasafnið, sem ferðamenn sækja heim. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
fDagbókarskrif verða að dýrmætum heimildum um hversdagslíf.
fDagbókarskrif verða að dýrmætum heimildum um hversdagslíf.
Kotbýli kuklarans er á Klúku í Bjarnarfirði og gefur hugmynd …
Kotbýli kuklarans er á Klúku í Bjarnarfirði og gefur hugmynd um hvernig húsakostur fjölkunnugs almúgamanns á 17. öld gæti hafa litið út. Þorkell Þorkelsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert