Getur strandað á takmörkuðu fjármagni

Óttarr Proppé, nýr heilbrigðisráðherra, Bjarni Benediktsson nýr forsætisráðherra, og Benedikt …
Óttarr Proppé, nýr heilbrigðisráðherra, Bjarni Benediktsson nýr forsætisráðherra, og Benedikt Jóhannesson, nýr fjármálaráðherra. Takmarkað fjármagn kann að reyna á samstarf flokkanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Háleit markmið stjórnarsáttmála sem á eftir að útfæra og sem í einhverjum tilfellum munu stranda á takmörkuðu fjármagni, kann að reyna verulega á samstarfi nýrra stjórnarflokka. Þetta segir dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands. Erfitt sé að spá fyrir um langlífi nýrrar ríkisstjórnar sem kunni vel að lifa út kjörtímabilið, en þó sé allt eins líklegt að menn gefist upp fyrr.

„Þetta er sama gamla baráttan um brauðið,“ segir Stefanía. „Nú liggja fyrir margskonar háleit markmið í þessum stjórnarsáttmála, en það á eftir að útfæra ýmislegt. Það mun stranda á því að ekki er til peningur til að gera allt það sem menn mundu vilja gera, eins og að greiða niður skuldir, efla heilbrigðis- og menntakerfið, auka rannsóknir og bæta í hvað varðar kjör aldraðra og öryrkja, svo dæmi séu tekinn.“

Þarf ekki að efast um góðan ásetning Óttars Proppé

Stefanía bendir á að allir flokkarnir hafi veigamikil ráðuneyti á sinni könnu, Sjálfstæðisflokkurinn sé til að mynda með forsætis- og innanríkisráðuneytið,en síðarnefnda ráðuneytið mun skiptast milli þeirra Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra og Jóns Gunnarssonar, ráðherra samgöngu-, byggða- og sveitarstjórnmála.

„Viðreisn er síðan með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem er veigamikið ráðuneyti og svo félags og velferðarráðuneytið. Það eru veigamiklir póstar,“ segir hún. „Björt framtíð er svo með heilbrigðisráðuneytið, þar sem mikið er undir.“ Stór hluti ríkisútgjalda fari enda til heilbrigðisráðuneytisins.

Spurð hvernig hún telji Bjartri framtíð eiga eftir að takast til við heilbrigðismálin, sem hafa reynst mörgum erfið, svarar hún: „Ég held það þurfi ekkert að efast um góðan ásetning hjá Óttari Proppé til þess að taka á þessum málum. Hins vegar er það staðreynd að það vantar heilmikla peninga inn í heilbrigðiskerfið og það er ekkert í stjórnarsáttmálanum um það hvernig eigi að standa að uppbyggingu innviða.

Það eru háleit markmið sett fram um uppbyggingu innviða, að stórefla heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið og ýmislegt fleira, en það eru engar útfærslur og þær bíða betri tíma.“

Dr. Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla …
Dr. Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hún segir háleit markmið geta strandað á því að ekki sé til peningur til allra þeirra aðgerða sem flokkarnir vilja fara út í. mbl.is/Styrmir Kári

Lítil merki í stjórnarsáttmála um breytingar í sjávarútvegsmálum

Stefanía segir það sama mega segja um Evrópu- og sjávarútvegsmálin í nýjum stjórnarsáttmála. „Margir kusu Viðreisn með það í huga  að flokkurinn myndi setja kosningar um Evrópusambandsaðild á dagskrá. Þeir töluðu líka fyrir breytingum í sjávarútvegi og landbúnaði. Nú telja hins vegar sumir að þeir sjái þess lítil merki í stjórnarsáttmálanum að það verði nokkrar breytingar í sjávarútvegsmálum.“

Of snemmt er þó að hennar mati að segja til um hvort svo verði. Stefanía bendir þó á að  Jón Bjarnason skipaði samninganefnd um sjávarútvegsmálin í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem skilaði af sér tillögum um samningaleið sem rifist var um út kjörtímabilið. Síðan hafa komið fram mismunandi frumvörp sem hafa sum gengið þvert á markmið þeirrar samninganefndar.

„Það hefur ekki gengið vel, hvorki að koma á samningaleið né að gera margar breytingar í sjávarútvegsmálum,“ segir Stefanía og nefnir sem dæmi að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi einnig ætlað sér að koma á umbótum á stjórn fiskveiða.

Þurfa að vera lunknir að leita lausna sem sátt er um

„Nú er þetta á borði Þorgerðar Katrínar og hún gaf til kynna í gær að hún hefði hug á að að efla kosningaloforð Viðreisnar einhvern veginn, þrátt fyrir óljós orð í stjórnarsáttmálanum,“ segir Stefanía. Sjálf kveðst hún skilja orðalag stjórnarsáttmálans þannig að til standi að reyna samningaleiðina á ný.

Gagnrýnt hefur verið að orðalag stjórnarsáttmálans sé opið í stóru málaflokkunum og Stefanía bendir á að engin mál sem krefjast lagabreytingar fari í gegn nema með samþykki meirihluta alþingis og að samstaða verði að vera um þau í ríkisstjórn.

„Og með eins manns meirihluta þá fer betur á því að hafa víðari sátt í málum,“ segir hún. „Mál sem snúast um kerfisbreytingar þarf að vinna á grundvelli víðtæks samráðs. Þess vegna þurfa þeir ráðherrar sem leiða stefnumótunarvinnuna að vera lunknir við að ná fram ólíkum sjónarmiðum og leita lausna sem almenn sátt er um og á grundvelli slíkrar sáttar að leggja málin fyrir alþingi.“

Það eigi því alveg eftir að koma í ljós hversu vel mönnum takist að halda stjórninni saman. „Það er erfitt að spá fyrir um langlífi þessarar ríkisstjórnar. Hún gæti alveg lifað kjörtímabilið eða lengur, en það er allt eins líklegt að menn gefist upp fyrr,“ segir Stefanía.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert