Túrinn notaður til að undirskipa konur

Femínistafélag Háskóla Íslands stendur fyrir Túrdögum í vikunni.
Femínistafélag Háskóla Íslands stendur fyrir Túrdögum í vikunni. Mynd/Femínistafélag Háskóla Íslands

„Túrinn er svona bara eitt dæmi um þennan meinta eða smávægilega kynjamun sem er síðan blásinn upp í menningunni og gefið miklu meira vægi en ástæða er til,“ segir Gyða Margrét Pétursdóttir, lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands.

Gyða Margrét tekur þátt í Túrdögum Háskóla Íslands sem haldnir eru í vikunni á vegum Femínistafélags Háskóla Íslands en hún heldur erindið Blóð, sviti, tár: Um [meintan/smávægilegan] kynjamun og afleiðingar hans á fimmtudag. Túrdagar hófust í dag og lýkur á fimmtudag en hægt er að skoða dagskrána á Facebook-viðburði Túrdaganna.

Mismunandi upplifanir

„Túrinn er notaður til að undirskipa konur en rannsóknir hafa sýnt bæði varðandi fyrirtíðaspennu og varðandi það að vera á túr, að það er mjög mismunandi hvernig konur upplifa það. Sumar finna ekki fyrir neinum sérstökum einkennum en samt er þetta eitthvað sem oft er notað markvisst gegn konum og þá er verið að vísa í einhverjar hugmyndir um að konur séu ekki eins áreiðanlegar eða séu á valdi tilfinninga sinna og að á þær sé ekki stólandi. Þá sérstaklega á þessum tíma mánaðarins.“

Gyða Margrét er lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands.
Gyða Margrét er lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Að sögn Gyðu Margrétar er þó lítið til í þessum hugmyndum enda er upplifun kvenna af blæðingum eins misjöfn og þær eru margar.

„Fyrir nokkrum árum gerði Herdís Sveinsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði, rannsókn [á þessu]. Niðurstaðan var nú bara einmitt sú að þetta væri svo margbreytileg upplifun að það væri í raun og veru ekki hægt að draga neinar ályktanir varðandi upplifun kvenna almennt.“

Þar fyrir utan segir Gyða Margrétt að oft séu dregnar órökréttar ályktanir um áhrif tíðahringsins á getu kvenna til að sinna ýmsum verkefnum.

„Svo getur maður sagt að það er eitt að finna fyrir einhverjum einkennum en að það hafi einhver áhrif á getu þína til ákvarðanatöku eða annars er síðan allt annar handleggur. Þarna er oft verið að draga órökréttar ályktanir á milli línanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert