Karlmenn sáu um fæðingar

Auk doktorsgráðu hefur Erla lokið hjúkrunarprófi á Íslandi og í …
Auk doktorsgráðu hefur Erla lokið hjúkrunarprófi á Íslandi og í Noregi og starfaði við hjúkrun í mörg ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru tveir hópar sem ég skrifaði um. Fyrst eru það læknarnir sem höfðu ákveðnum skyldum að gegna þegar kom að barnsfæðingum og síðan eru það bændur, hreppstjórar og prestar. Þetta voru sérstakir karlmenn, ekki hver sem er. Þeir voru taldir nærfærnir og þolinmóðir og höfðu áhuga á að hjálpa konum að fæða börn.“

Þetta segir Erla Dóris Halldórsdóttir, sem varði doktorsritgerð sína, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760-1880, við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Ísland í október.

Á tímabilinu stóð heilbrigðiskerfið á brauðfótum að sögn Erlu. Þá var mikill skortur á lærðum ljósmæðrum og aðeins átta læknar störfuðu hér á landi en íbúar landsins voru um 60 þúsund. Sumir læknar höfðu þrjár sýslur á sinni könnu og því kom oft í hlut ólærðra karlmanna að hafa umsjón með fæðingum. Erla fann 56 tilvik þar sem fæðingin fór þannig fram.

„Það eru meira að segja dæmi um að bóndi hafi sótt annan bónda til að aðstoða konu sína í fæðingunni,“ segir Erla. „Í einhverjum sýslum fann ég engan, þá voru bara konur sem sinntu þessu, en það voru óvenjumörg tilvik á Norðurlandi,“ segir Erla.

Fólk leit upp til þeirra

Aðeins einn karlmaður hefur lokið ljósmæðraprófi í sögu Íslands, en það gerðist árið 1776. Þegar landlæknir kemur til landsins árið 1760 ber hann boð frá Danakonungi um að fæðingarhjálp eigi að vera í umsjón giftra miðaldra kvenna eða ekkna. Þá var jafnvel ein lærð ljósmóðir í hverri sýslu og ein sýsla er gríðarstór fyrir ljósmóður að ferðast yfir á hesti eða ganga. Viðhorf gagnvart karlmönnum sem veittu aðstoð við fæðingu voru almennt jákvæð á Íslandi en ekki hjá öllum stéttum. „Fólk leit upp til þessara karla að læknum undanskildum, það talaði mjög illa um þá og vildi ekki hafa þá í þessum störfum.“

Engu síðri aðstoð

Erla hefur einnig rannsakað mæðradauða á sama tímabili. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að á árunum 1760-1859 hafi mæðradauði á Íslandi verið undir 1% en hann var 10-15% í Norður-Evrópu. „Börn á Íslandi fæddust heima, þau komust í heiminn lifandi og mæðurnar lifðu fæðingarnar af. Það var ekki verri útkoma hjá körlunum sem sinntu fæðingarhjálp heldur en hjá konu sem var lærð ljósmóðir. Svo eru líka dæmi um að fólk hafi treyst karlmönnunum betur,“ segir Erla. Hún segir að það sé líklega séríslenskt fyrirbæri að ólærðir karlar hafi sinnt fæðingarhjálp, þar sem hún hafi ekki fundið álíka heimildir annars staðar á Norðurlöndum.

Menntaðir og ómenntaðir

Um tvenns konar hópa af yfirsetukonum var að ræða á því tímabili sem rannsókn Erlu tekur til. Þetta voru konur sem sinntu starfinu án þess að hafa menntun og svo konur sem lærðu og luku prófi í yfirsetukvennafræðum. Þær fengu greidd laun úr konungssjóði.

Þeir karlmenn sem sinntu fæðingarhjálp eru flokkaðir í fernt í ritgerðinni: ólærða karla, presta sem veittu fæðingarhjálp í nokkrum tilfellum, karla sem höfðu lokið yfirsetukvennaprófi og lækna. Reyndist aðeins einn karlmaður sem ekki var læknir hafa lokið yfirsetukvennaprófi á þessu tímabili.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert