Tengsl við stóriðju aðeins eitt atriði

„Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að skoða hvort það sé ávinningur á …
„Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að skoða hvort það sé ávinningur á því að skima fyrir mergæxlum og forstigi þess og í leiðinni söfnum við allskonar öðrum gögnum og getum svarað spurningum um horfur sjúklinga með forstig, orsakir, erfðir umhverfi og svo framvegis,“ útskýrir Sigurður Yngvi. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Þeir sem standa að almennri rannsókn Háskóla Íslands á forstigi mergæxla ætla að taka þrjú ár að fá inn blóðprufur þeirra sem samþykkt hafa að vera með í rannsókninni. Síðan verður öllum þátttakendum fylgt eftir í 5-7 ár.

73 þúsund manns hafa samþykkt að taka þátt í rannsókninni og sögn Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum sem fer fyrir rannsókninni en bætist stöðugt í hópinn.

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í dag að möguleiki væri á því að stóriðja á Akranesi ætti þátt í því að fleiri greinist með mergæxli þar en annars staðar á landinu. Sigurður segir stóriðjuna aðeins eitt þeirra atriða sem kannað er í rannsókninni. 

„Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að skoða hvort það sé ávinningur á því að skima fyrir mergæxlum og forstigi þess og í leiðinni söfnum við allskonar öðrum gögnum og getum svarað spurningum um horfur sjúklinga með forstig, orsakir, erfðir umhverfi og svo framvegis,“ útskýrir Sigurður Yngvi.

„Ef að við greinum til dæmis 4000 manns með forstigið um allt land getum við borið saman hvað þeir eiga sameiginlegt. Eru þeir í ákveðnum aldurshópi eða af öðru kyninu, unnið svipuð störf eða verið með ákveðna sjúkdóma? Tengslin við stóriðjuna er aðeins eitt atriði sem mögulega er hægt  að skoða í rannsókninni. Það er ekki hægt að segja að það sé samband milli stóriðjunnar og að einhverjir hafi greinst á Akranesi,“ segir Sigurður Yngvi.

Hann bætir þó við að ef það komi í ljós við skimunina svæði nálægt stóriðju þar sem tengsl eru við mergæxli verði það skoðað betur.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að hlutfallslega hafi mest …
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að hlutfallslega hafi mest þátttaka í blóðskimuninni hafa verið á Akranesi. Vitað er að fleiri hafa greinst með mergæxli á Akranesi undanfarin ár og að mun fleiri karlar en konur hafi greinst eða yfir 80%. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjaryfirvöld verða á tánum

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að hlutfallslega hafi mest þátttaka í blóðskimuninni hafa verið á Akranesi. Vitað er að fleiri hafa greinst með mergæxli á Akranesi undanfarin ár og að mun fleiri karlar en konur hafi greinst eða yfir 80%.

Bæjarstjóri  Akraness, Sævar Freyr Þráinsson, segir bæjaryfirvöld ætla að fylgjast mjög grannt með rannsóknum Sigurðar og hvað kemur út úr þeim.

„Við erum bara fyrst og fremst virkilega glöð að hann sé að fá alvöru fjármagn til að rannsaka þetta. Heilsa og öryggi Skagamanna er fyrir öllu og við munum fylgjast mjög vel með þessu,“ segir Sævar í samtali við mbl.is. Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að bæjaryfirvöld á Akranesi muni biðja um frekari rannsóknir á málinu komi einhver tengsl í  ljós segir Sævar að yfirvöld muni að sjálfsögðu undirbúa sig á  þann hátt verði einver atriði í niðurstöðum rannsóknarinnar sem þarf að rannsaka nánar. „Við verðum á tánum hvað það varðar.“

Sævar segir að yfir 2000 Skagamenn hafi samþykkt að taka þátt í rannsókninni og segist hann finna fyrir ánægju í samfélaginu að þessi mál verði nú rannsökuð.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjórinn á Akranesi.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjórinn á Akranesi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert