„Tungumál er til alls fyrst“

Vigdís Finnbogadóttir hélt síðustu ræðuna við opnun Veraldar í dag.
Vigdís Finnbogadóttir hélt síðustu ræðuna við opnun Veraldar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tungumál er til alls fyrst,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir við opnun Veraldar, húss Vigdísar og Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar í dag. Hún hélt síðustu ræðuna á hátíðlegri dagskrá og var henni þakklæti ofarlega í huga. Fjölmargir stigu á stokk og ýmist héldu ræðu, fluttu ljóð eða sungu. Tungumál úr öllum heimshornum voru í hávegum höfð í líflegri setningarathöfn. 

Vígdís ræddi um mikilvægi tungumálsins sem sameiningartákns því það byggi brýr og auki víðsýni. Hún benti á að það væri dýrmætt fyrir allan heiminn að passa upp á að ekkert tungumál dæi út og líkti tungumálum við minnisbanka heimsins sem allir þyrftu að eiga aðgang að. 

Áður en hún bauð fólki að ganga úr Háskólabíói og yfir í Veröld kallaði hún upp á svið Auði Hauksdóttur, forstöðumann Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, og þakkaði henni sérstaklega fyrir dugnað og eljusemi við að láta Veröld verða að veruleika.  

Kór við húsið Veröld.
Kór við húsið Veröld. mbl.is/Kristinn Magnússon


 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi á svipuðum nótum og Vígdís um mikilvægi tungumálanna sem lykil að öðrum menningarheimum. Hann benti á að sjálfsmynd þjóðar byggðist meðal annars á þeirri fullvissu að eiga einhvers staðar heima. Hann sagði að ratvísi Íslendings um heiminn og aftur heim væri byggð á þrenningunni; land, þjóð og tunga þrenning sönn og ein og vitnaði í hið víðfræga ljóð Snorra Hjartarsonar. 

„Við Íslendingar eigum sama orðið yfir heima og heiminn,“ sagði Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur og forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Hún greindi frá þeim listaverkum sem prýða Veröld sem eru jafnt eftir innlenda sem erlenda listamenn. Hún hvatti gesti til að skoða verkin í Veröld og undirheimana sem þar opnast og benti á kosti myndmálsins sem getur ferðast milli landa án túlka. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt ræðu.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt ræðu. mbl.is/Kristinn Magnússon


 
   

Mikilvæg samvinna Norðurlanda

Rigor Dam, mennta- og menningarmálaráðherra Færeyja, hélt einnig ræðu á bæði dönsku og færeysku. Hún ræddi um mikilvægi samvinnu landanna í gegnum tíðina og impraði á því að Norðurlandabúar ættu að nota norræna tungumálið í ríkari mæli í samskiptum sín á milli. Hún kvaðst vera stolt af Íslendingum sem hafa staðið vel við bakið á Færeyjum í gegnum tíðina.

Irina Bokova, framkvæmdastjóri UNESCO, nýtti tæknina og ávarpaði fundargesti í gegnum netið. Hún sagði Íslendinga hafa staðið sig vel í gegnum tíðina við að leysa vandamál. Í því samhengi benti hún á mikilvægi þess að tungumálið héldi velli í sístækkandi heimi þar sem landamærin væru ekki eins sjáanleg með tilkomu nýjustu tækni. Hún ítrekaði að heimurinn þyrfti að gefa gaum að þeim fjölmörgu tungumálum heimsins sem væru öll jafnmikilvæg en þau eru alls um 6.700.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert