Í fyrra þegar dagur, mánuður og ár mynduðu talnamynstrið 06.06.06 fór varla fyrir annarri eins giftingahrinu enda bar 6. júní upp á þriðjudag og fátt um giftingar á virkum dögum.
Fara þarf aftur til ársins 2003 til að fá talnamynstrið 03.03.03 til að bera upp á laugardag og þá var talsvert um hjónavígslur hjá Vigfúsi Þór. Og ljóst er að hinn 07.07.07 mun hann leyfa óvenju mörgum brúðgumanum að kyssa brúðina. "Þetta er náttúrlega skemmtileg tala en ég áttaði mig ekki á því þegar sá fyrsti hringdi," segir hann og bætir við að sú bókun hafi komið síðla árs 2005.
Sr. Vigfús mun gefa saman hjón hér og þar á höfuðborgarsvæðinu þar á meðal í sóknarkirkju sinni, Grafarvogskirkju.
"Auk þess sem 7. júlí ber upp á laugardag er talan 7 heilög tala þannig að þetta er dálítið skemmtilegt."
Þetta verður í annað sinn á þessari öld sem samstætt talnamynstur lendir á laugardegi, en fyrsta skiptið var árið 2003 eins og að framan gat. Samstæð talnamynstur næstu árin koma ekki á laugardegi og því verða þeir sem vilja gifta sig 08.08.08 að láta pússa sig saman á föstudegi. Fyrir 09.09.09 yrði það miðvikudagur og 10.10.10 sunnudagur. Þeir sem vilja síðan láta gifta sig 11.11.11 verða að velja föstudag og loks kemur 12.12.12 á miðvikudegi. Þrettándi mánuðurinn er enn ekki kominn fram á sjónarsviðið og það bíður því næstu kynslóða að velja laugardag á samstæðu mynstri á næstu öld.