Eiginmaður Britney Spears, Kevin Federline, neitar því að hann hafi í fórum sínum kynlífsmyndband með þeim hjónum. Spears sótti fyrr í mánuðinum um lögskilnað frá Federline og komst þá sá kvittur á kreik að Federline ætlaði að senda fré sér kynlífsmyndbandið umrædda til birtingar. Lögfræðingar hans segja slíkt myndband ekki til og að slúðurblöð hafi logið þessu.
Tímaritið US Weekly hélt því fram að Spears og Federline hefðu horft á kynlífsmyndbandið með lögfræðingum sínum vegna hótunar ónefndrar persónu í föruneyti þeirra um að birta myndbandið. Þau fóru í mál við blaðið en dómari vísaði málinu frá með þeim rökum að Spears hefði hagnast á kynþokka sínum og rætt kynlíf opinskátt. Því gæti grein Us Weekly ekki talist ærumeiðandi.
Spears og Federline gengu í það heilaga fyrir tveimur árum, skömmu eftir að Spears ógilti hjónaband sitt og æskuvinar síns Jason Alexander. Spears og Federline eiga tvö börn. Talið er að eignir Britney nemi 123 milljónum dollara, um 8.800 milljónum króna. BBC segir frá þessu.