Íbúi í Salahverfinu í Kópavogi skreytti eigið hús og nágranna sinna með sama hætti og eru bæði húsin á meðal þeirra sem fá viðurkenningu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir snotrar jólaskreytingar í ár.
Eigendur sjö einbýlis- og fjölbýlishúsa allt frá Akranesi suður í Garðabæ eru verðlaunaðir í ár, en Orkuveitan verðlaunar smekkvísa húseigendur í þeim sex sveitarfélögum þar sem það sér um dreifingu rafmagns. Húseigendurnir fengu afhentan viðurkenningarvott í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur í dag og innrammaða mynd af ljósum prýddum húsum þeirra, að því er segir í tilkynningu.
Í Reykjavík fellur viðurkenningin í skaut samhentra íbúa sex íbúða fjölbýlishúss við Rósarima 1 en í Kópavoginum eru það nágrannarnir í Jórsölum 6 og 8 sem hljóta viðurkenninguna í ár.
Hér fer listi yfir þau hús sem dómnefnd Orkuveitunnar þótti skara fram úr á aðventunni 2006
Dalsflöt 10, Akranesi
Arnartangi 22, Mosfellsbæ
Jórsalir 6 og Jórsalir 8, Kópavogi
Tjaldanes 15, Garðabæ
Rósarimi 1, Reykjavík
Fornaströnd 1, Seltjarnarnesi