Skorað hefur verið á stjórnendur Enska þjóðarballettsins (English National Ballet) að losa sig við einn af aðaldönsurum sínum. Áskoranirnar koma í kjölfar þess að Simone Clarke ítrekaði nýlega stuðning sinn við Þjóðarflokkinn breska (British National party).
Fyrir tveimur vikum benti Guardian á þá staðreynd að Clarke væri meðlimur í öfgahægriflokknum og fékk hún á sig mikla gagnrýni í kjölfarið. Ballerínan svaraði svo gagnrýninni í viðtali við Mail on Sunday sem birtist sl. sunnudag. Þar kemur fram sú skoðun Clarke að Þjóðarflokkurinn sé sá eini sem sé "reiðubúinn til að taka afstöðu" gegn frekari innflutningi fólks. Einnig upplýsir Clarke að það hafi verið að undirlagi kærasta hennar, Yat Sen-Chang, sem er af kínversk-kúbönskum uppruna og einnig meðal mikilvægari dansara Enska þjóðarballettsins, sem hún gekk til liðs við flokkinn.
Viðtalið hefur valdið þjóðarballettinum talsverðum vandræðum, en stofnunin gat bægt sér frá gagnrýni í kjölfar uppljóstrunar Guardian með því að benda á að skoðun Clarke væri einkamál hennar. Starfsemi ballettsins er hins vegar kostuð af opinberu fé og lýtur stofnunin þar af leiðandi lögum frá árinu 2000 sem skylda hana til að hvetja til jákvæðra samskipta kynþátta. Nú þarf hún þess vegna að svara fyrir að einn af þekktari listamönnum hennar hefur notfært sér stöðu sína til að tala fyrir málstað öfgahægriflokks.