Von er á enn einni kvikmyndinni um mannætuna Hannibal Lecter eftir nokkra mánuði. Að þessu sinni mun Anthony Hopkins þó ekki leika aðalhlutverkið heldur ungur franskur leikari, Gaspard Ulliel að nafni, enda fjallar myndin um uppvaxtarár Lecters í Litháen og Frakklandi.
Myndin er gerð eftir nýrri skáldsögu Thomas Harris, sem nefnist Hannibal Rising og kom út í desember. Leikstjóri er Peter Webber, sem gerði m.a. myndina Girl with a Pearl Earring.
Bók Harris fékk frekar slaka dóma gagnrýnenda líkt og bókin Hannibal, sem kom út fyrir nokkrum árum, öfugt við bækurnar Red Dragon og Silence of the Lambs, sem fjölluðu einnig um Hannibal Lecter. Allar þessar bækur hafa verið kvikmyndaðar.