Söngleikjamyndin Dreamgirls, sem byggir lauslega á ferli stúlknasveitarinnar The Supremes, fær flestar tilnefningar til Óskarsverðlaunanna í ár, alls átta talsins. Óvænt þykir þó að myndin er ekki tilnefnd sem besta kvikmyndin. Kvikmyndin Babel í leikstjórn Alejandro González Iñárritu fær sjö tilnefningar, þ.á.m. sem besta kvikmyndin.
Aðrar myndir sem tilnefndar er sem besta kvikmyndin eru Departed, Letters From Iwo Jima, Little Miss Sunshine og kvikmyndin The Queen, sem fjallar um viðbrögð Elísabetar Englandsdrottningar við andláti Díönu prinsessu árið 1997.
Engin ein mynd þykir líklegri en aðrar til að vinna þessi eftirsóttu verðlaun í ár, þar sem Dreamgirls, sem hreppti Golden Globe verðlaunin í flokki söngva- og grínmynda fyrir stuttu, er ekki á listanum.
Meðal leikara sem tilnefndir eru til verðlauna er Helen Mirren fyrir kvikmyndina The Queen, Forest Whitaker fyrir túlkun sína á Idi Amin í kvikmyndinni The Last King of Scotland, og Eddie Murphy og Jennifer Hudson fyrir hlutverk sín sem söngvarar í Dreamgirls.
Murphy hefur aldrei áður verið tilnefndur til Óskarsverðlauna þrátt fyrir langan og vel heppnaðan feril.
Þá er Meryl Streep tilnefnd sem besta leikkonan fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Devil Wears Prada, en þetta er í fjórtánda sinn sem hún fær óskarstilnefningu, þar af hefur hún unnið tvisvar til verðlauna.
Spænska þokkadísin Penelope Cruz er tilnefnd fyrir leik sinn í kvikmyndinni Volver, breska leikkonan Judi Dench fyrir túlkun sína á ráðabruggandi kennara í kvikmyndinni Notes on a Scandal og Kate Winslet fyrir kvikmyndina Little Children.
Meðal karlleikara er Leonardo DiCaprio tilnefndur fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Blood Diamond, Ryan Gosling fyrir Half Nelson, Peter O’Toole fyrir leik í myndinni Venus og Will Smith fyrir hlutverk sitt sem heimilislaus faðir í myndinni The Pursuit of Happiness.
Mörgum þykir líklegast að Forrest Whitaker hreppi verðlaunin sem besti leikarinn, þótt Peter O’Toole þyki vel að þeim kominn. O’Toole hefur sjö sinnum verið tilnefndur til verðlauna, en hefur aldrei unnið.