Umboðsmaðurinn Bernie Brillstein, sem m.a. vann með John Belushi og Chris Farley, segir að leikarinn Owen Wilson eigi framtíðina fyrir sér í Hollywood þrátt fyrirsjálfsmorðstilraun hans um helgina skyggi tímabundið á ímynd hans sem gamanleikara. Þetta kemur fram á fréttavef CNN
"Hann er elskaður,” segir Brillstein. "Þetta er alvarlegt mál en þetta er einstakt atvik. Það geta allir átt slæma daga, mjög slæma daga.” Þá segist hann telja að kvikmyndaframleiðendur muni sýna aðstæðum Wilsons skilning og að hann verði ekki sjálfkrafa stimplaður vandræðagepill og flokkaður með óáreiðanlegum stjörnum á borð við Lindsay Lohan og Britney Spears.
Paul Dergarabedian, sérfræðingur hjá greiningafyrirtækinu Media By Numbers, tekur í sama streng og segir Wilson vera vel liðinn og að hann njóti almennrar samúðar og stuðnings þessa dagana.
Dr. Charles Goodstein, prófessor í geðlækningum við læknadeild New York University, segir hins vegar algengt að stjörnur þjáist í einsemd og vanlíðan þar sem þær hleypi fáum handan ímyndar sinnar og haldi jafnvel grímunni gagnvart sínum nánustu. “Fólk í skemmtanaiðnaðinum er almennt talið fyrirferðarmikið og því er skapsveiflum þeirra tekið sem eðlilegum hlut,” segir hann. Þá segir hann að þetta leiði til þess að oft verði enginn var við raunverulega vanlíðan þeirra fyrr en mjög langt sé gengið. “Fræga fólkið er mjög fært í því að forðast samskipti við alla þá sem geta hugsanlega komið auga á að það eigi við vandamál að stríða,” segir hann.