„Þetta er svona skemmtun sem spannar alla tónlistarsöguna, nánast frá því að hótelið var opnað. Við tökum Abba-lögin, Bítlana, Bjarni Ara tekur Elvis og Tom Jones-lög og Hara-systur koma síðan ferskar inn með svolítið meira „physical" nálgun á sviðsframkomuna en hjá okkur heldra liðinu! Raggi Bjarna verður þarna með okkur, en hann virðist bara fara batnandi með árunum, er alveg ótrúlegur kallinn. Saman koma þarna því þrjár kynslóðir á sviðinu, sem er nú ekki amalegt!
„Ég hef nú verið eitthvað lítið þarna síðan Sumargleðin hætti," segir Raggi og hlær. „Mér varð einmitt hugsað til þess í gær, þegar ég labbaði upp tröppurnar, hversu oft ég hefði nú farið um þessar blessuðu tröppur! Sumir hafa sagt að ég sé jafnvel orðinn að einni súlunni í Súlnasal! En það er voðalega gaman að vera kominn þarna aftur, því ég á margar góðar minningar þaðan."