Dómsskjöl í forræðismáli Britneyjar Spears og Kevins Federlines, sem birt voru í gær, sýna að söngkonan sparar ekki við sig í fatnað og skemmtanir en er lítið að fjárfesta eða gefa til góðgerðarmála af þeim rúmlega 43 milljónum króna sem hún hefur að meðaltali í mánaðartekjur.
Meðal mánaðarlegra útgjalda eru þrjár milljónir króna í afborganir af tveimur húsum, um ein milljón í föt og sex milljónir í skemmtanir, gjafir og ferðalög. Þá kemur fram í skjölunum að hún setji ekki krónu í menntun, sparnað og fjárfestingar, og framlag hennar til góðgerðarmála er um 30 þúsund krónur á mánuði.
Hún borgar Kevin alls um tvær milljónir króna í meðlag á mánuði, en það minnkar um helming um miðjan mánuðinn.
Stærsti útgjaldaliðurinn hjá Kevin er aftur á móti húsaleiga, en í hana greiðir hann 442 þúsund á mánuði, og 350 þúsund í öryggisgæslu. Hann er tiltölulega lítið gefinn fyrir að kaupa föt, en í þau ver hann ekki nema rúmum hundrað þúsund krónum. Mánaðarlegar tekjur hans á síðasta ári voru að meðaltali um 30 milljónir króna.