Fyrir helgi greindu 24 stundir frá samstarfserfiðleikum listakonunnar Marinu Abramovic og kynlífsráðgjafans Dr. Ruth. Þær áttu að koma fram saman sem hluti af Tilraunamaraþoni hátíðarinnar en ekkert varð úr samstarfi þeirra.
„Það var ákveðið að þær myndu bara gera þetta hvor í sínu lagi. Það var það langt á milli hugmynda þeirra um hvernig atriðið skyldi fara fram,“ segir Soffía Karlsdóttir, deildarstjóri markaðs- og kynningarmála hjá Listahátíð.
„Dr. Ruth hélt afar klassískan fyrirlestur, eins og hún er þekkt fyrir. Hún var með ráðleggingar til sýningarstjóra og gesta úti í sal um hvernig væri hægt að efla sjálfstraust á kynlífssviðinu. Það var troðfullt og mikið glens og gaman.“
Marina kom svo fram í lok dags en gjörningur hennar snerist að nokkru leyti um samstarfserfiðleika hennar við kynlífsfræðinginn.„Hún byrjaði á því að sýna myndband er fjallaði um samskipti hennar við Dr. Ruth, allt frá því að þær byrjuðu að ræða saman um hvernig atriðið ætti að vera fram til þess að slitnaði upp úr hjá þeim. Svo gerði hún sinn gjörning sem snerist í kringum sálarrannsóknarborð er krafðist þátttöku gesta.“