Bandaríska kvikmyndin The Wrestler, eða Glímumaðurinn, hlaut í kvöld gullljónið, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum. Myndin fjallar um fjölbragðaglímumann, leikinn af Mickey Rourke, sem má muna fífil sinn fegri en ákveður samt að taka þátt í einni keppni enn.
Leikstjóri myndarinnar var Bandaríkjamaðurinn Darren Aronofsky, sem áður hefur gert myndirnar The Fountain og Reqiuem for a Dream. Myndin var fyrst sýnd á hátíðinni í gær en alls tók 21 kvikmynd þátt í keppninni um gullljónið. Rourke hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína í myndinni.
Það var þó Ítalinn Silvio Orlando, sem var valinn besti leikarinn fyrir frammistöðu sína í myndinni Il Papa di Giovanna. Dominique Blanc frá Frakklandi var valin besta leikkonan fyrir leik sinn í myndinni L'Autre.
Þá var Rússinn Aleksej German valinn besti leikstjórinn fyrir myndina Papa Soldier.