Nú er loks búið að tilkynna það hvenær næsta plata Guns N´Roses - Chinese Democracy - kemur út, en hörðustu aðdáendur sveitarinnar hafa beðið hennar lengi. Platan verður gefin út í Bandaríkjunum 23. nóvember nk., skv. bandaríska tónlistartímaritinu Billboard.
Búið er að fresta útgáfu plötunnar margoft, sem hefur verið í vinnslu í um áratug. Síðast var t.d. rætt um að hún ætti að koma út í maí í fyrra. Rokksveitin gaf síðast út plötu árið 1993, sem bar titilinn The Spaghetti Incident?
Fyrsta plata Guns N´ Roses, Appetite For Destruction, sem kom út árið 1987, verður endurútgefin í vínylformi um leið og nýja platan.
Nýjasta smáskífan, Shackler's Revenge, verður að finna í tölvuleiknum Rock Band 2, en leikurinn kemur út áður en Chinese Democracy mun líta dagsins ljós.
Þá verður lagið If The World notað í kvikmyndinni Body of Lies, með þeim Leonardo DiCaprio og Russell Crowe í aðalhlutverkum.
Þá má geta þess að bandarískur gosdrykkjarframleiðandi hét því að senda öllum Bandaríkjamönnum gosdós ef nýja platan kæmi út á þessu ári.