Heather Mills, fyrrum eiginkona Bítilsins Paul McCartney, er þegar sögð hafa eytt um helmingi þeirra fjármuna sem henni voru dæmdir við skilnað þeirra hjóna fyrir sjö mánuðum en samkvæmt úrskurði hlaut hún 24,3 milljón sterlingspund við skilnaðinn.
Er Mills sögð hafa varið tíu milljónum í fasteignakaup og ferðalög auk þess sem hún hafi greitt starfsfólki sínu 500.000 pund í laun. Þá hefur hluti fjármuna hennar farið í lögfræðikostnað vegna málaferla fyrrum almannatengslsfulltrúa hennar gegn henni.
Mills, sem keypti íbúð fyrir 2,5 milljónir punda í New York í júlí, er nú sögð hafa farið fram á það við McCartney að hann kaupi af henni setur hennar í Austur Sussex sem metið er á fjórar milljónir punda. Mun hún bera því við að hún hafi ekki efni á að ljúka fyrirhuguðum breytingum á því en hún hefur m.a. látið gera sundlaug á setrinu.
Skammt er síðan greint var frá því Heather hefði gefið heimilislausum börnum í Bronx í Bandaríkjunum grænmetisfæði fyrir 600.000 pund.