Stórstjörnur á borð við U2, Bruce Springsteen og Beyonce eru á meðal þeirra tónlistarmanna sem munu taka lagið til að fagna því að Barack Obama muni taka við embætti forseta Bandaríkjanna.
Stevie Wonder, Usher, Mary J. Blige og Sheryl Crow munu einnig koma fram á hátíðinni, sem fer fram 18. janúar nk. við Lincoln minnisvarðann í Washington. Búist er við því að Obama, sem sver embættiseið tveimur dögum síðar, muni verða viðstaddur tónleikana.
Þá munu leikararnir Queen Latifah, Jamie Foxx og Denzel Washington flytja ávörp.
Maðurinn á bak við sýninguna, George Stevens Jr., segir að það hafi komið sér á óvart hversu auðvelt það hefði verið að fá stjörnurnar til samstarfs.
„Fyrsta daginn báðum við Springsteen, Bono og Garth Brooks að taka þátt og innan 45 mínútna vorum við búnir að fá þrjú já,“ sagði Stevens við AP-fréttastofuna.