Áttundi þáttur af Weird Girls verkefninu, myndband við lag hljómsveitarinnar Agent Fresco, Eyes of a Cloud Catcher, kemur út í dag. Upphafskona Weird Girls, listakonan Kitty von-Sometime, segir þetta stærsta verkefni hópsins frá upphafi, en 27 stúlkur tóku þátt.
Agent Fresco óskaði eftir því við Kitty að hún gerði tónlistarmyndband fyrir hljómsveitina. Myndbandið er tekið upp eftir venjum Weird Girls hópsins, allt tekið upp á einum degi og þátttakendurnir mæta án þess að vita hvernig hugmyndin á bak við verkefnið er, búningarnir eða staðsetningin. Þetta er fyrsti þátturinn sem var kvikmyndaður í stúdíói.
Kitty sjálf framleiddi og leikstýrði myndbandinu. Aðstoðarleikstjóri var Atli Viðar Þorsteinsson, kvikmyndataka var í höndum Hrafns Garðarssonar og Diljá Ámundadóttir aðstoðaði við framleiðslu. Ljósmyndir eru eftir Leó Stefánsson.
Hróður Weird Girls verkefnisins berst æ víðar og hefur meðal annars verið fjallað um það í tímaritinu Dazed and Confused.
Áður hafa verið gerð myndbönd fyrir heartsrevolution, Ghortigital og Emilíönu Torrini. Kitty er þegar með þrjá þætti á teikniborðinu til að hrinda í framkvæmd að loknu barneignarleyfi hennar á næsta ári. Hún kveðst vera með opin augu fyrir búningahönnuðum, tónlistarmönnum ljósmyndurum og kvikmyndatökuliði til að vinna með að frekari verkefnum.
Hér má sjá myndbandið, Episode 8.