Talið er að um 35.000-40.000 lifandi jólatré seljist á Íslandi á ári og þar af er fjórðungur til þriðjungur innlend framleiðsla. Seljendur eru á því að kaupendur séu fyrr á ferðinni í ár en áður og segja að mikill kippur hafi verið í sölunni um nýliðna helgi.
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni voru flutt inn um 199.000 kg af jólatrjám án rótar 2008 og um 247.000 kg í fyrra. Ef reiknað er með að trén séu 8 kg að meðaltali gera þetta um 25.000 tré 2008 og um 31.000 tré í fyrra.
Að sögn Ragnhildar Freysteinsdóttur hjá Skógræktarfélagi Íslands fóru að minnsta kosti um 9.000 íslensk tré á markað 2008 og um 11.000 tré í fyrra. Hún segir að innlend framleiðsla vegi ekki þyngra í heildinni en raun ber vitni vegna þess að tiltölulega nýlega hafi tré markvisst verið ræktuð sem jólatré og þau séu því ekki enn almennilega komin á markað. Í öðru lagi hafi innfluttu trén verið ódýrari.
Steinunn Reynisdóttir, deildarstjóri í Garðheimum, segir að svolítil söluaukning hafi verið í fyrra og byrjunin núna lofi góðu. „Það var mikið að gera um síðustu helgi og verður örugglega enn meira um þá næstu,“ segir hún og bætir við að normannsþinurinn sé alltaf vinsæll og þeir sem kynnist stafafuru vilji helst ekkert annað.