Meiri skörun milli listgreina í samtímanum

Sýningarstjórarnir Elísabet V. Ingvarsdóttir og Anna Jóa
Sýningarstjórarnir Elísabet V. Ingvarsdóttir og Anna Jóa mbl.is

Nautn og notagildi nefnist viðamikil sýning á íslenskri hönnun og myndlist sem opnuð verður í dag í Listasafni Árnesinga en á henni má finna verk á annað hundrað hönnuða og listamanna. Sýningarstjórar eru Anna Jóa og Elísabet V. Ingvarsdóttir en þær búa að mikilli reynslu úr sviði myndlistar annars vegar og hönnunar hins vegar.

Um sýninguna segir í tilkynningu að á henni sé „efnt til samræðu verka eftir á annað hundrað höfunda í þeim tilgangi að kanna snertifleti milli myndlistar og hönnunar á Íslandi“. Þegar blaðamaður náði tali af Önnu og Elísabetu fyrr í vikunni stóðu þær í ströngu við undirbúning, enda stutt í opnun.

Getið þið nefnt dæmi um listamenn og hönnuði á sýningunni?

„Það er gaman að segja frá því að Gjörningaklúbburinn sýnir þarna í fyrsta sinn hér á landi skúlptúrinn Villikonuvúdúömmuhekl sem Björk klæddist á Volta-plötunni, en í verkunum eru þær á ekki ósvipuðum slóðum og Kjarval í Skógarhöllinni sem er elsta verkið á sýningunni,“ segir Anna og Elísabet bætir við: „Talandi um ævintýri þá verður þarna Ugluspegill, verk Katrínar Ólínu vöruhönnuðar sem hefur leikið sér á mörkum myndlistar og hönnunar og verkið er gott dæmi um það. Elstu húsgögnin á sýningunni voru teiknuð á Teiknistofu húsameistara ríkisins, Guðjóns Samúelssonar.“

Hverjir eru snertifletirnir á sýningunni?

„Segja má að snertifletir hafi í fyrstu verið meira út frá formrænni túlkun og hugmyndafræði módernismans en síðar fara mörkin að verða óljósari og mörkin óræðari þar sem sérstaklega hönnunin hefur færst nær myndlistinni með frelsi í sköpun sem er ekki eins bundin af fjöldaframleiðslunni og áður,“ segir Elísabet og Anna bætir við: „Eitt af áhersluatriðum sýningarinnar er heimilið því þar mætast hlutir úr heimum myndlistar og hönnunar. Á sýningunni er m.a. lögð áhersla á innimyndir og verk sem skírskota til borgarvæðingar og heimilismenningar. Má þar nefna málverkið Heimili listamannsins eftir Þórarin B. Þorláksson frá 1923. Þarna eru líka ljósmyndir sem teknar hafa verið inni á íslenskum heimilum fyrr og nú. Úr slíkum verkum má lesa þróun í tíðaranda, og áhrif frá stefnum og straumum í myndlist og hönnun.

Skapa spennu milli fagurgildis hluta og notagildis

Sýningarumgjörðin skírskotar þannig til einkarýmisins, þar sem við stillum upp myndlistarverkum og hlutum úr heimi húsgagna- og vöruhönnunar, auk nytjalistar. Þannig er leitast við að skapa spennu milli fagurgildis hlutanna og notagildis.“

Lítur safnið þá með einhverjum hætti út eins og íslenskt heimili?

„Aðalsalur safnsins er settur upp eins og tímaás með uppstillingum hönnunar og myndlist út frá ríkjandi stefnum,“ segir Elísabet. „Hins vegar var raunveruleikinn annar á íslenskum heimilum og það er dregið fram með öðrum tímaás í formi fjölskylduljósmynda í bakgrunninn,“ segir Anna. „Varðandi mörk og markaleysi, þá eru mörkin vissulega til staðar en þau voru skýrari hér áður fyrr. Júlíana Sveinsdóttir er dæmi um listamann sem vann jöfnum höndum að málaralist og nytjalist og gerði sjálf skýran greinarmun þar á – en listgildi allra verka hennar er ótvírætt. Samtíminn einkennist hins vegar af meiri skörun og krossræktun milli listgreina og menningarsviða,“ segja Anna og Elísabet að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant