Lögreglan í New Orelans í Bandaríkjunum hefur lýst eftir leikaranum og óskarsverðlaunahafanum Cuba Gooding Jr. Er Gooding gefið að sök að hafa hrint gengilbeinu tvisvar sinnum í kjölfar deilna þeirra á milli.
Samkvæmt frásögn gengilbeinunnar mætti leikarinn á barinn um þrjúleytið í nótt ásamt hópi fólks. Aðrir gestir báru fljótlega kennsl á hann og vildu fá hann til þess að vera með sér á ljósmyndum. Varð hann fljótlega pirraður á þeim. Gekk þá gengilbeinan að Gooding og bað hann að róa sig niður.
Ýtti hann henni frá sér með flötum lófa. Samstarfsmaður hennar hringdi þá á lögregluna og leikaranum var tjáð að hann þyrfti að yfirgefa barinn. Ýtti hann henni þá aftur og yfirgaf svæðið samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Er Gooding nú eftirlýstur fyrir „minniháttar líkamsárás“.
Ekki hefur enn náðst í talsmann leikarans. Cuba Gooding Jr. vann Óskarsverðlaunin fyrir bestan leik í aukahlutverki fyrir leik sinn í kvikmyndinni Jerry Maguire, þar sem hann lék hrokafullan ruðningsleikmann sem skrifaði undir samning hjá umboðsmanninum Jerry Maguire, leiknum af Íslandsvininum Tom Cruise, eftir að Maguire „sýndi honum seðlana“.
Gooding hefur einnig leikið aukahlutverk í myndum á borð við „Pearl Harbor“, „A Few Good Men“ og var í aðalhlutverki í Spike Lee-myndinni „Boyz in the Hood“. Í seinni tíð hafa myndir Goodings ekki náð miklum vinsældum og flestar endað beint á DVD án þess að hafa haft langa viðkomu í kvikmyndahúsunum.