Leita að ungum aðalleikurum

Kvikmyndin fjallar um vini í litlu sveitaþorpi.
Kvikmyndin fjallar um vini í litlu sveitaþorpi.

Framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures leitar nú að ungum leikurum fyrir kvikmyndina Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson. Strákar á aldrinum 11-17 ára og stelpur á aldrinum 12-17 eru hvött til að sækja um en áheyrnarprufur verða haldnar í nóvember.

„Við erum að fara í svolítið ítarlega leit en það er ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af leiklist til þess að koma í prufur,“ segir Þóra Karítas Árnadóttir, einn af framleiðendum myndarinnar.

Þóra segir kvikmyndina gerast yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi og fjalla um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina.

„Aðalpersónurnar eru þeir Þór og Kristján. Þór er að komast á kynþroskaskeiðið en er ekkert rosalega öruggur með sig og hann er skotinn í stelpu sem er sætasta stelpan í þorpinu. Hann á í svolitlum vandræðum með að nálgast hana en Kristján er öruggari með sig. Hann er svolítið eins og verndarinn hans Þórs og hann ákveður að hjálpa honum,“ segir Þóra. „Við erum að leita að tveimur strákum og tveimur stelpum á aldrinum 11 til 15 í aðalhlutverkin og svo erum við að leita að eldri stelpum og strákum líka.“

Verkefnið þegar verðlaunað

 Hjartasteinn verður fyrsta kvikmynd Guðmundar í fullri lengd en stuttmynd hans, Hvalfjörður, hefur hlotið mikla athygli um allan heim og er t.a.m. tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2014. Hjartasteinn hefur þegar unnið til verðlauna, Warnier Posta verðlaunanna nánar tiltekið á samframleiðslumarkaði Kvikmyndahátíðar Hollands og einnig hlaut Guðmundur þann heiður að vera valinn með Hjartastein í fjögurra mánaða leikstjórnarsmiðju Cannes kvikmyndahátíðarinnar

 Í Hjartasteini sækir Guðmundur innblástur í sína eigin reynslu frá því að hann ólst upp að hluta í sjávarþorpi út á landi og mun honum umhugað um að birta bíógestum á öllum aldri margslunginn reynsluheim unglinga í stórbrotnu umhverfi Íslands.

„Þetta er ofboðslega hugljúf og hjartnæm saga sem snertir við manni og þetta er ofboðslega vandað handrit,“ segir Þóra. „Þetta er saga sem snertir fólk á öllum aldri og ég held ungt fólk sem eldra muni njóta þess að horfa á þessa mynd.“

Áætlað er að tökur hefjist í ágúst en Þóra segir ekki annað duga en að fara strax af stað. „Við ætlum okkur jafnvel að fara í efstu bekki grunnskólanna og svolítið út á land og við viljum endilega hvetja krakka utan af landi til að sækja um.“

Áhugasömum er bent á að sækja um með því að senda eina til þrjár nýlegar ljósmyndir ásamt upplýsingum um fullt nafn, aldur, og hæð auk símanúmers og nafns forráðamanns á netfangið casting@joinmotionpictures.com fyrir 15. nóvember. 

Frekari upplýsingar um Hjartastein má finna á Facebook.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar.
Guðmundur Arnar Guðmundsson, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler