Mandy Rice-Davies látin

Mandy Rice-Davies
Mandy Rice-Davies LEON NEAL

Mandy Rice-Davies, sem ásamt Christine Keeler, áttu þátt í að fella John Profumo, varnarmálaráðherra Bretlands, árið 1963 er látin. Hún var sjötug, en banamein hennar var krabbamein.

Nafn Profumos komst á allra varir snemma á sjöunda áratug síðustu aldar en ástarsamband hans og vændiskonunnar Christine Keeler er talið hafa stuðlað að falli ríkisstjórnar íhaldsmanna í kosningunum 1964.

Mandy Rice-Davies leigði með Keeler á þessum tíma. Hún hitti hins vegar aldrei Profumo, en hún flæktist inn í dómsmál sem fylgdu í kjölfar afsagnar Profumo. Hún var sögð hafa átt í ástarsambandi við Astor lávarð. Hann neitaði því hins vegar að hún hefði verið ástkona hans.

Frægt var þegar neitun lávarðsins var borið undir hana í dómssal. „Well he would, wouldn't he?“ svaraði Mandy Rice-Davies. Þetta svar var tekið upp í tilvitnanaorðabók Oxford.

Átti þátt í að fella ríkisstjórnina

Profumo-málið var án efa eitt helsta hneykslismál breskra stjórnmála á síðustu öld. Profumo var stríðsmálaráðherra þegar hann hóf stutt samband við Keeler árið 1961. Keeler, sem var nítján ára gömul, var þá hins vegar einnig í tygjum við sovéskan flotasendifulltrúa og leyniþjónustumann, Jevgení Ívanov.

Kalda stríðið var á þessum árum í algleymingi og hið óviðurkvæmilega samband Profumos við Keeler vakti því enn meiri athygli en ella þegar það komst upp.

Rannsókn leiddi síðar í ljós að sambandið hefði ekki ógnað þjóðaröryggi Bretlands en engu að síður hrikti í stoðum ríkisstjórnar Harolds Macmillan og dagblaðalesendur um allan heim fylgdust hugfangnir með framvindu málsins. Sögur um svallveislur fyrirmanna komust á kreik og gerðu dagblöð sér mat úr því.

Af ítölskum aðalsættum

Profumo var efnaður maður af ítölskum aðalsættum og lauk námi frá Oxford. Hann þjónaði í breska hernum í síðari heimsstyrjöldinni en var fyrst kjörinn á þing 1940, þá 25 ára gamall. Á sjötta áratugnum var hann um tíma utanríkisráðherra og þótti eiga bjarta framtíð fyrir sér í stjórnmálum, jafnvel var rætt um hann sem hugsanlegan leiðtoga íhaldsmanna.

Profumo-málið, sem ávallt var kallað svo, batt hins vegar enda á stjórnmálaferil hans.

Profumo neitaði því í fyrstu þegar upp komst um samband hans og Keeler snemma árs 1963. Eftir að dagblöð í Bretlandi birtu opinberlega bréf sem hann skrifaði Keeler sagði Profumo hins vegar af sér bæði ráðherradómi og þingmennsku í júní 1963. Harold Macmillan forsætisráðherra sagði af sér í október sama ár af heilsufarsástæðum, en rætt var um að heilsu hans hefði hrakað vegna Profumo-málsins. Og í kosningum árið eftir töpuðu íhaldsmenn völdunum til Verkamannaflokksins.

Búinn að bæta fyrir mistökin

Profumo ræddi aldrei um málið opinberlega en reyndi hins vegar að endurheimta æru sína, hann starfaði lengi launalaust við að hjálpa fátækum í London og var haft eftir Deedes lávarði, blaðamanni og vini Profumos, í gær að hann hefði fyrir löngu verið búinn að bæta fyrir mistök sín.

Saga Christine Keeler og sambands hennar við Profumo og Ívanov, en þó ekki síður við Stephen nokkurn Ward, sem gerði Keeler og fleiri stúlkur út sem vændiskonur, var kvikmynduð árið 1989 en þar fór Sir Ian McKellen með hlutverk Profumos. Myndin hét Scandal og lék Joanne Whalley þar Keeler. Keeler sat síðar í fangelsi um níu mánaða skeið en Ward var hins vegar ákærður fyrir að hafa viðurværi sitt af ósiðlegri iðju og framdi hann sjálfsmorð á síðasta degi réttarhaldanna yfir honum.

Profumo lést 2006, 01 árs að aldri.

Mandy Rice-Davies og Christine Keeler árið 1963.
Mandy Rice-Davies og Christine Keeler árið 1963.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir