Ábyrgir fyrir að Obama er forseti?

Kynslóð Bandaríkjamanna var alin upp við að hlusta á hip-hop á 9. áratugnum, hvítir eða svartir, allir hlustuðu á rapp. Þetta er fólkið kaus Barack Obama sem forseta Bandaríkjanna, í valdamesta embætti heims. „Höfðum við eitthvað með það að gera? Já, auðvitað,“ segja meðlimir Public Enemy í BBC heimildamyndinni Prophets of Rage sem er að finna hér að neðan.

Í myndskeiðinu sem fylgir að ofan ræðir Eyjólfur Eyvindarson eða Sesar A um hvernig Public Enemy hafði áhrif á hann en Eyjólfur, sem er mikill aðdáandi, byrjaði að fylgjast með sveitinni á sama tíma og hún náði vinsældum.

Á níunda áratugnum var Public Enemy ein stærsta hljómsveit heims og margir myndu segja án efa sú mikilvægasta. Meðlimir sveitarinnar með Chuck D fremstan í flokku fluttu boðskap þar sem þeir buðu kynþáttafordómum og misrétti birginn af miklum krafti. Sveitin er væntanleg til landsins í sumar þar sem hún mun koma fram á All Tomorrows Parties-hátíðinni sem haldin verður á Ásbrú á Suðurnesjum dagana 2.-4. júlí.

Public Enemy var stofnuð árið 1982 á Long Island í New York, hún bylti hljómnum í rappi og hip-hopi á síðari hluta áratugarins með plötunum Yo! Bum Rush The Show og It Takes A Nation Of Million To Hold Us Back. Þéttur hljóðveggurinn sem „pródúsentarnir“ í The Bomb Squad byggðu var fullkomið undirspil fyrir kraftmiklar pólitískar predikanir Chucks D þar sem raunveruleika svartra Bandaríkjamanna var lýst og misréttinu mótmælt.

Það hafði svosem verið gert áður en krafturinn í sveitinni smitaði frá sér og glaumgosinn Flavour Flav myndaði fullkomið jafnvægi með beittum rímum Chucks D.

Á nokkrum árum náði sveitin miklum vinsældum en það fjaraði jafnhratt undan henni á 10. áratugnum þegar innbyrðis erjur og óvarlegar athugasemdir í fjölmiðlum urðu þeim erfiðar. Samsæriskenningar um að íhaldssömum pólitískum öflum hefði verið í nöp við sveitina og reynt að bregða fyrir hana fæti hafa komist á kreik en ótrúverðugt er að það hafi verið ástæðan fyrir minnkandi vinsældum.

Í upphafi tíunda áratugarins náði ný tegund rapps flugi með nýjum hljómi þar sem efnishyggjan náði yfirhöndinni og rappað var um mellur, bíla og seðla. Public Enemy átti illa heima í þessu umhverfi. Sveitin hefur þó alltaf haldið áfram að búa til tónlist og halda tónleika og allir helstu meðlimir hennar munu koma fram með sveitinni á Ásbrú.  

Chuck D hefur lítið linast með árunum og lætur í sér heyra þegar honum finnst tilefni til eins og tilfellið var í óeirðunum í Ferguson í Missouri eftir að lögreglan þar skaut Michael Brown. Hann er mjög virkur á twitter eins og og sést hér þar sem hann notar sem oftar orðið corplantations sem er samsett úr corporations (stórfyrirtæki, fyrirtækjasamstæður) og plantations (plantekrur) og fullyrðir að stórfyrirtækin séu þrælakistur samtímans.   

Sömu sögu er að segja af Flavour Flav þótt segja megi að öðruvísi reisn sé yfir ferli hans en hann vakti athygli fyrir nokkrum árum þegar hann var aðalstjarnan í raunveruleikaþættinum Flavour of Love sem var í líkingu við Bachelor-þættina alræmdu en í þetta skiptið kepptu stúlkur um ástir bragðarefsins Flavour Flav sem hefur glímt við fíkn á ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant