„Ég er eiginlega alveg upp með mér. Þetta var ótrúlega skemmtileg upplifun og magnað tækifæri,“ segir söngkonan Karólína Jóhannsdóttir, sem fór með sigur af hólmi í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Menntaskólans í Reykjavík í gær.
Karólína söng lagið Go Slow með Haim og sungu þær Guðrún Ýr Eyfjörð, Kristín Björg Björnsdóttir og Melkorka Davíðsdóttir bakraddir. Fulltrúar 29 framhaldsskóla höfðu reynt sig um miðjan dag og var MR meðal þeirra tólf skóla sem komust áfram í úrslit. Þau fóru fram í myndveri Sagafilm og voru í beinni útsendingu á RÚV í gærkvöldi.
„Ég vissi að við áttum séns en ég veit ekki hvort ég geng það langt að segja að ég hafi búist við þessu,“ segir Karólína, aðspurð hvort hún hafi átt von á sigrinum. Hún segist hafa búist við því að Saga Matthildur Árnadóttir, sem söng fyrir hönd Fjölbrautaskólans í Garðabæ, yrði ofarlega þar sem henni hafi þótt hún alveg mögnuð.
Saga Matthildur lenti í þriðja sæti og var atriðið hennar jafnframt valið það vinsælasta í símakosningu. Eftir að það var tilkynnt segist Karólína hafa vonað að hennar atriði hreppti annað hvort fyrsta eða annað sætið.
Borgarholtsskóli hafnaði í öðru sæti og var það Aron Hannes Emilsson sem söng lagið Forrest Gump eftir Christopher Breaux & James Ho. „Eftir að það kom í ljós að við værum hvorki í þriðja né öðru sæti grunaði mig sterklega að við myndum sigra en mér brá samt þegar úrslitin voru tilkynnt,“ segir Karólína. Hún segist lítið muna eftir þeirri stund, en þó muni hún hversu hissa hún var en á sama tíma ótrúlega ánægð. „Þetta var alveg frábært og ótrúlega gaman.“
Karólína hefur tekið þátt í söngkeppni MR tvisvar sinnum áður, en þetta var í fyrsta skipti sem hún tók þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna. Hún hefur aldrei lært söng, en segist alltaf hafa þótt gaman af því að syngja. „Ég hef gert það aðallega í sturtu og þegar ég tek til í eldhúsinu,“ segir hún og hlær.
Hún segist ekki ætla að hætta að syngja á næstunni, þar sem það sé eitt af því skemmtilegasta sem hún geri. „Það væri rosalega gaman ef einhver tækifæri myndu bjóðast því þetta er ótrúlega spennandi og hrikalega gaman.“
Karólína segir gærkvöldið hafa verið mjög skemmtilegt og viðbrögðin frá samnemendum og öðrum hafa verið gríðarlega góð eftir keppnina.
Eftir keppnina átti hún svo að mæta á viðburð þar sem hún átti að koma fram, en hún segist hafa steingleymt því og þess í stað farið í afmæli hjá vini sínum. „Ég beilaði því alveg óvart á það,“ segir hún og hlær. „Svo fór ég einhverra hluta vegna á B5 í fyrsta skipti í langan tíma svo þetta var mjög skrítið kvöld en skemmtilegt engu að síður.“
Frétt mbl.is: MR fór með sigur af hólmi