Minningar úr munni ættingjanna

Elsa Dagný Ásgeirsdóttir hannar fínlega skartgripi úr tönnum.
Elsa Dagný Ásgeirsdóttir hannar fínlega skartgripi úr tönnum. Eggert Jóhannesson

Ætla mætti að skartgripir smíðaðir úr tönnum manna féllu helst í kramið hjá pönkurum og gothurum og þeim sem fyrir eru skreyttir mikilfenglegu húðflúri og svokölluðu „piercing“ eða gataskarti. Þótt tennur séu efniviðurinn í fínlegum skartgripum sem Elsa Dagný Ásgeirsdóttir lagði fram sem hluta af lokaverkefni sínu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands minna þær ekkert á tennur í fljótu bragði. Ekki heldur pönkara og gothara. Tengingin við tennurnar er margslungin og helgast af minningum eins og Elsa Dagný lýsir nánar í texta sem fylgir verkinu „Fragments“ á útskriftarsýningu nema í myndlist, hönnun og arkitektúr við Listaháskóla Íslands sem opnuð verður í dag klukkan 14.00 í Listasafni Reykjavíkur:

„Minningabrot frá fjölskyldu sem dreifð er um landið allt og út fyrir landsteinana koma saman á einum stað í lítilli öskju, falinni í skúffu. Þessi minningabrot eru í formi tanna. Tönnunum var safnað saman af alúð og hlýju en ekki þótti viðeigandi að hafa þær fyrir allra augum. Jafnvel þótt tennurnar segi fallegar sögur og búi yfir minningum frá fjölskyldunni þykja mörgum mannatennur einar og sér fremur ógeðfelldar. Með því að mylja tennurnar niður í duft og bræða það inn í glerperlur öðlast efnið virði á ný sem skart. Fjölskyldumeðlimirnir geta þá borið skartið sem glugga inn í fortíð og vísun í sameiginlegt minni.“ Þegar Elsa Dagný var lítil þótti henni fyrrnefnd askja heima hjá ömmu sinni og afa mjög leyndardómsfull, aðallega þó vegna þess að hún var ekki höfð sýnileg á heimilinu.

Askjan hennar ömmu

„Ég sóttist í að skoða innihaldið. Amma safnaði tönnum barna sinna, barnabarna og barnabarnabarna sinna og átti dágott tannasafn þegar hún lést fyrir tveimur árum, en nú eru afkomendurnir hennar orðnir þrjátíu og einn. Amma sagði oft að hún sæti uppi með sjóð sem hún vissi ekkert hvað hún ætti að gera við. Hún hafði þó óljósar hugmyndir um að búa eitthvað til úr tönnunum. Við ræddum þetta stundum en það var ekki fyrr en að henni látinni að mér datt í hug að tengja tennurnar lokaverkefni mínu með einhverjum hætti. Verkið hefur því mikla persónulega þýðingu fyrir mig, með því tek ég hugmynd ömmu minnar lengra, “ segir Elsa Dagný.

Verkið fjallar um minningar og nafnið ,,fragments“ vísar í minningabrot. „Gæti líka verið tannbrot,“ segir Elsa Dagný. Tannbrotin sem urðu að mulningi; hvítu dufti inni í glerperlum, sem allar eru í svipaðri stærð um einn cm í þvermál og engar tvær nákvæmlega eins í laginu frekar en önnur mannanna handverk. „Ég notaði gamaldags aðferð, muldi tennurnar á milli tveggja stálplatna og prófaði að því búnu alls konar aðferðir til að bræða það inn í glærar glerperlur. Á endanum vann ég verkið hjá Sverri Guðmundssyni, glersmiði við Háskóla Íslands, með því að setja duftið í glerrör, sem síðan var brætt og gert perlulaga,“ útskýrir hún.

Sagan öll

En ekki var öll sagan sögð. Þar sem markmið Elsu Dagnýjar var að „þýða“ – eins og hún segir, þennan efnisbrunn yfir á nýja hönnun vildi hún gera frekari grein fyrir gildi verksins fyrir fjölskyldu sína. Í því skyni fékk hún nokkra fjölskyldumeðlimi til að skreyta sig skartinu og sitja fyrir á mynd hjá ljósmyndara, en sjálf var hún listrænn stjórnandi. Þrjár þessara mynda eru partur af verkinu. Og það er raunar líka lokaritgerð hennar frá Listaháskólanum, sem hún skrifaði fyrir jólin og ber yfirskriftina Einu sinni var..., undirfyrirsögnin er Samband sagna og vöruhönnunar.

„Ritgerðin er ekki beintengd tannverkinu sem slíku, frekar nokkurs konar undanfari, en í henni lýsi ég hvernig sögur og frásagnir koma fram í vöruhönnun,“ segir Elsa Dagný. „Sumar sögur má lesa úr myndmáli hlutarins, hvort sem það er efnið, aðferðin eða formið, aðrar sögur myndast kringum tilfinningaleg tengsl við hlut og enn aðrar hafa verið búnar til sem rammi til að hanna vörur,“ segir hún m.a. í ritgerðinni

Það má augljóslega segja sögur með ýmsum hætti, líka fjölskyldusögur. Brot af fjölskyldusögu Elsu Dagnýjar eru hjúpaðar gleri.

mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson