„Í hvert skipti sem þú þrífur ekki upp eftir þig bætum við öðru Justin Bieber lagi við lagalistann.“
Svona hljóðar aðvörunin sem Stefan Ekeroth, framkvæmdastjóri líkamsræktarstöðvarinnar Karlstad Atletklubb í Svíþjóð hengdi upp á stöðinni þegar honum varð ljóst að róttækar aðgerðir þyrfti til að halda henni hreinni.
„Ég hafði tekið eftir því að fólk var ekki að halda staðnum hreinum og „Mamma þín vinnur ekki hérna,“ skiltin voru ekki að virka,“ sagði hann í samtali við The Local.
Ekeroth hafði fengið sig fullsaddan af því að skila lóðum aftur á sinn stað og taka til í búningsherbergjunum. Því festi hann Bieber á vegginn og viti menn, það virkaði!
„Enginn vill hlusta á Justin Bieber þegar hann er að lyfta 200 kílóum,“ sagði Ekeroth hlæjandi. „Það er ekki rétta stemmningin. Þú þarft þungarokk, þú þarft Metallica.“