Quarashi lokar hringnum

Quarashi tuttugu árum síðar: Ómar „Swarez
Quarashi tuttugu árum síðar: Ómar „Swarez" Hauksson, Egill „Tiny Thorarensen, Höskuldur Ólafsson, Steinar Orri Fjeldsted og Sölvi Blöndal. mbl.is/Ófeigur

Fyrir tuttugu árum komu ungir menn saman í skúr í vesturbænum til að gera tilraunir í tónlist. Annar þeirra var búinn að gefast upp á rokkinu en hinn á kafi í hiphopi og raftónlist. Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn náðu þeir vel saman og hringdu í þann þriðja sem sungið hafði með ýmsum rokksveitum. Úr þessu samstarfi spratt hljómsveitin Quarashi sem átti eftir að verða vinsælasta hljómsveit Íslands til margra ára og vakti athygli langt út fyrir landsteinana.

Félagarnir tveir sem hrintu öllu af stað eru þeir Sölvi Blöndal, sem spilað hafði með SSSpan, 2001 og Stjörnukisa, og Steinar Orri Fjeldsted, sem kynnst hafði hiphopi og skeitmenningu vestan hafs og var staddur hér á landi í sumarheimsókn. Steinar segir að þeir Sölvi hafi kynnst um sumarið og farið að ræða tónlist, „hann var að gera takta og ég rímur, nýfluttur frá Bandaríkjunum og ætlaði bara að vera sumarið. Eitt af því sem við töluðum um var hve íslensk tónlist væri leiðinleg og það varð til þess að ég mætti út í skúr og við förum að taka upp grunna.“

Eins og getið er var Sölvi hættur í rokkinu, hætti í Stjörnukisa eftir sigur þeirrar sveitar í Músíktilraunum 1996. „Ég hafði misst áhugann á að vera trommuleikari, hafði uppgötvað tölvutæknina og var að búa til takta. Einhvern veginn þróaðist það svo að ég fór að hanga meira með Steina og með skeiturunum svo þetta var líka breyting fyrir mig persónulega, ég var að skipta um umhverfi. Það er gaman þegar maður lokar einum dyrum og þá opnast oft aðrar, en mig óraði ekki fyrir því hvað þetta myndi hafa mikil áhrif.“

Steini: „Þetta var góður hópur af strákum úr vesturbænum og krúið hans Sölva, blanda af indíi og hiphopi. Ég hlustaði rosa mikið á raftónlist á þessum tíma og geri enn, hlustaði meira á hana en hiphop, og vissi eiginlega ekkert hvað rokk og ról var. Það var Sölvi sem kynnti mig fyrir rokkinu.“

Sölvi: „Umfram allt þá var þetta bara góður fílingur. Steini kemur með raftónlistargen inn í þetta og skeitið. Bigbeatið og Ninja Tunes og Prodigy, ég var að hlusta á þetta allt og það hafði mikil áhrif á mig, en við náðum best saman í kringum hiphopið þannig að Quarashi varð blanda af allskonar áhrifum, ekki beint hiphop, ekki beint bigbeat ekki beint rokk, hafði sitt eigið sánd.“

Steini: „Við hlustuðum gríðarlega mikið á tónlist, Ég átti heima á Hverfisgötu og það var partípleis, bjó þar með félaga mínum og þar vorum við að djamma og spáðum í tónlist allt sumarið þangað til um haustið þá formlega vorum við orðnir hljómsveit án þess þó að hafa sest niður og sagt: eigum við að stofna hljómsveit?“

Sölvi: „Ég hringdi í Hössa, Höskuld Ólafsson, vegna þess að ég þekkti hann, við vorum saman í MR. Hann var eiginlega eini gaurinn sem ég þekkti sem kunni að syngja, eins fáránlegt og það er, og líka svona rokktýpa. Hann tók svo upp á því sjálfur að rappa textana, þannig að það var eiginlega tilviljun líka, hann bara kom og sagði: má ég ekki prófa að rappa þennan texta? Það fannst okkur geðveikt.

Steini: „Ég man eftir því þegar Hössi labbaði inn í skúrinn í leðurjakka með lubbann og í bol sem á stóð Rock 'n' Roll. Ég hugsaði: hvaða steik er þetta? Svo sagði hann: Ég hef aldrei rappað áður, má ég prófa?“

Grunnarnir urðu fleiri og svo voru komin fimm lög og þeir félagar ákváðu að gefa þau út og þá gera það sjálfir. Þegar hér var komið sögu voru þeir orðnir fjórir, Richard Oddur Hauksson sá um að skráma plötur.

Quarashi-liðar í árdaga, myndin er tekin í skúrnum í nóvember …
Quarashi-liðar í árdaga, myndin er tekin í skúrnum í nóvember 1996. Sölvi Blönda, Steinar Orri Fjeldsted og Höskuldur Ólafsson. mbl.is/Árni Sæberg

Það var bara hlegið að okkur

„Það vildi náttúrlega enginn gefa þetta út,“ segir Steini. „Íslenskt rapp! Það var bara hlegið að okkur.“ Steini: „Þegar Switchstance kom svo loks út eftir smá basl þá vildi enginn sjá þetta né selja. Samt fór platan á rosalegt flug, seldist upp á nokkrum dögum og við fórum að spila á fullu. Við áttum samt ekki nema þessi fjögur eða fimm lög en spiluðum þau bara þrisvar eða fjórum sinnum á hverjum tónleikum.“

Sölvi: „Ég verð nú að viðurkenna að ég hafði ekki upplifað mig sem neitt success í tónlist fram að því, þannig að fyrir mér var þetta eitthvað alveg nýtt. Bara það að dagblað eins og Mogginn skuli skrifa um okkur var mikið mál í mínum augum, mynd af mér í blaðinu og einhver að skrifa um það sem ég var að gera, ég ætlaði ekki að trúa því.“

Steini: „Ég hafði verið í tónlist og gert einhver lög, en ég vissi ekki að það væri hægt að vera frægur eða vinsæll á Íslandi og þegar unglingar fóru að hlaupa á eftir manni eða rífa í jakkann manns, ég var bara hræddur, ég vissi ekki hvað var í gangi.“

Sölvi: „Ég verð nú að viðurkenna það að ég hafði viljað þetta lengi, en þegar það loksins kom fannst mér það ekkert þægilegt.“

Steini: „Furðulegt, maður fór Hverfisgötuna í stað Laugavegarins til að hitta engan. Þetta gerðist of hratt.“

Sölvi: „Kannski aðeins of hratt.“

Steini: „En við tókum fullan þátt í því, vorum mjög virkir og hraðir á þeim tíma, vorum að spila fimm sinnum í viku og taka upp Eggið á nóttunni. Og síðan kom Eggið út og hún gerði góða hluti,“ en Eggið er fyrsta breiðskífa sveitarinnar sem hét einfaldlega Quarashi.

Sölvi: „Eggið tók alveg þrjá eða fjóra mánuði. Hún var furðuleg plata í vinnslu af því við vorum alltaf að læra skrefin jafnóðum, hvernig sándið okkar ætti að vera. Ég vissi ekkert hvernig ætti að gera plötu, hvað ættu að vera mörg lög á henni, 12, 15, 16?

Ég var lengi óánægður með Eggið eftirá, var súr yfir því að hún var ekki alveg eins og ég vildi að hún væri og hlustaði ekki á hana í fimmtán ár. Samt hitti ég oft fólk sem fannst hún frábær og skildi ekki hvernig við fórum að því að gera þessa plötu á þessum tíma þegar við vorum ekki með tölvur til að taka upp. Í dag finnst mér Eggið frábær plata, hún er mjög skapandi, það er mikið af hugmyndum á henni.“

Steini: „Mér finnst Eggið æðisleg plata og mér hefur alltaf fundist hún frábær af því að mér finnst hún svo frjó – það er svo mikið af skemmtilegum pælingum á henni, hún fer um víðan völl, er svo lifandi, langt ferðalag.“

– Segja má að þróun sveitarinnar hafi verið lífræn fram að Egginu – þið voru greinilega ekki að velta hlutunum of mikið fyrir ykkur, bara að gera það sem hljómaði vel og enginn sagði: Nei, heyrðu, bíddu nú, þetta má ekki. Þegar þið farið í hljóðver að taka Eggið upp þurfa menn aftur á móti að ákveða hvert skal stefna, þurfa að skapa meðvitað.

Steini: „Switchstance og Eggið voru ekki þannig, það móment kom ekki fyrr en þegar kom að Xeneizes, þá settumst við niður og ræddum að við þyrftum að fylgja því eftir sem gengið hafði vel og spá í hvernig við gætum búið til hittara, við hugsuðum ekki mikið út í það áður. Við vorum þó ekki farnir að spá í það að gera eitthvað í útlöndum, það var aldrei pæling.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant