Sannkölluð gríngoðsögn fallin frá

Gene Wilder árið 2008 með bók sína The Woman Who …
Gene Wilder árið 2008 með bók sína The Woman Who Wouldn't. AFP

Margar af frægustu stjörnum heims hafa minnst gamanleikarans Gene Wilder, sem lést í gær 83 ára að aldri. Á meðal þeirra eru Mel Brooks, Jim Carrey, Russell Crowe, Sir Roger Moore, Sarah Silverman og Julia Louis Dreyfus.

Frétt mbl.is: Gene Wilder látinn 

Wilder fæddist í Milwaukee og fékk sitt fyrsta stóra tækifæri árið 1961 í uppfærslu utan Broadway á leikritinu Roots. Í framhaldi af því lék hann í fyrsta sinn á Broadway í The Complaisant Lover.

Á meðal fleiri hlutverka hans á Broadway var hlutverk  í One Flew Over the Cuckoo´s Nest á móti Kirk Douglas og ári síðar í Mother Courage and Her Children þar sem hann lék á móti Anne Bancroft.

Kynntist Mel Brooks

Bancroft var þá kærasta leikstjórans Mel Brooks, sem síðar varð eiginmaður hennar. Hún kynnti Wilder fyrir Brooks og náðu þeir strax vel saman.

Brooks sýndi Wilder handritið að myndinni Springtime for Hitler sem síðar fékk titilinn The Producers.

Wilder vann fyrri Óskarsverðlaun sín fyrir túlkun sína á Leopold Bloom í myndinni, en það var hans fyrsta stóra kvikmyndahlutverk.

Hann sló rækilega í gegn þegar hann lék sérvitringinn Willy Wonka í söngleikjafantasíunni Charlie and the Chocolate Factory sem var frumsýnd 1971. Myndin var byggð á bók Roald Dahl frá árinu 1964.

Wilder hlaut mikið lof fyrir að leika The Waco Kid í þriðju mynd Brooks, grínvestranum Blazing Saddles. Félagarnir leiddu saman hesta sína á ný í myndinni Young Frankenstein árið 1974 þar sem gert var grín að hryllingsmyndum fjórða áratugarins.

„Gene Wilder – Sannarlega einn mesti hæfileikamaður okkar tíma. Hann setti mark sitt á hverja einustu mynd með töfrum sínum og hann blessaði mig með vinskap sínum,“ skrifaði Brooks á Twitter.

Hinn krullaði Wilder lék á móti Richard Pryor í þó nokkrum kvikmyndum, þar á meðal Silver Streak og Stir Crazy.

„Frábært gríndúó að eilífu, pabbi og #Gene Wilder RIP,“ skrifaði Rain Pryor, dóttir Richards Pryor á Twitter.

Síðasta stóra hlutverk Wilders var í sjónvarpsmyndinni Lísa í Undralandi í lok tíunda áratugarins. Mótleikarans hans voru Ben Kingsley og Martin Short.

Wilder, sem hét réttu nafni Jerome Silberman, tók þátt í að annast veika móður sína á sínum yngri árum. Hún fékk hjartaáfall þegar hann var sex ára og lést hún sautján árum síðar. Faðir hans var innflytjandi af rússneskum gyðingaættum sem starfaði við innflutning á áfengisflöskum.


Eftir að hafa útskrifast með leikhúsgráðu frá Háskólanum í Iowa stundaði Wilder nám við Old Vic-skólann í Bristol á Englandi. Þar æfði hann einnig skylmingar og gekk svo í bandaríska herinn áður en hann sneri sér að leiklistinni.

Wilder kvæntist sinni fjórðu eiginkonu, Karen, árið 1991.

Þriðja eiginkona Wilder, Gilda Radner, hafði áður látist úr krabbameini í eggjastokkum. Sjálfur greindist hann með eitlakrabbamein árið 2000 og dró hann sig nokkuð í hlé eftir það. Leikarinn greindist með Alzheimer fyrir þremur árum síðan og er dánarorsök hans talin tengjast sjúkdómnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson