Einar söng með Stone Temple Pilots

Tónlistarmaðurinn Einar Vilberg.
Tónlistarmaðurinn Einar Vilberg. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var svolítið eins og að spila með gömlum vinum, mjög góð upplifun. Þeir voru lausir við alla tilgerð og voru augljóslega mjög ánægðir með sönginn,“ segir tónlistarmaðurinn Einar Vilberg um áheyrnarprufu sem hann fór í hjá bandarísku rokksveitinni Stone Temple Pilots í Los Angeles fyrr í mánuðinum.

Forsaga þessarar lygilegu sögu er þó hálf dapurleg. Eftir að Scott Weiland, söngvari hljómsveitarinnar, féll frá í lok síðasta árs eftir áralanga baráttu við áfengis- og eiturlyfjafíkn ákvað Einar, sem hefur haldið upp á STP frá unglingsaldri, að heiðra minningu hans. „Það var sorglegt hvernig fór fyrir honum [Weiland] og ég ákvað að taka upp órafmagnaða útgáfu af laginu Interstate Love Song,“ segir Einar, sem setti upptökuna á Youtube án þess að gera sér neinar væntingar um að eitthvað meira yrði úr því.

Það átti þó eftir vinda upp á sig því að í byrjun árs auglýstu eftirlifandi meðlimir sveitarinnar, þeir Dean DeLeo, Robert DeLeo og Eric Kretz, eftir umsóknum frá söngvurum sem myndu vilja ganga í hljómsveitina og teldu sig hafa það sem þyrfti til að leiða sveitina á tónleikaferðum og við upptökur á nýrri plötu.

 Lagið „Big Empty“ var eitt af þeim lögum sem Einar flutti með Stone Temple Pilots í Los Angeles fyrr í mánuðinum.

40.000 umsóknir

Stefán Vilberg, tvíburabróðir Einars, hvatti hann til að senda upptökuna, það gæti varla skaðað. Einar gerði það án þess þó að gera sér miklar vonir um að hljóta starfið þar sem 40.000 þúsund manns sendu sín framlög til sveitarinnar. Að vísu segir hann að sumt af því hafi ekki verið til útflutnings eins og sagt er.

Einar var því ekki mikið að velta þessu fyrir sér enda upptekinn við útgáfu á eigin tónlist og á von á sínu öðru barni á næstu dögum. „Svo í júlí einhverjum fimm mánuðum seinna fæ ég tölvupóst frá umboðsmanni sveitarinnar þess efnis að bandið kunni að meta það sem það hafi heyrt og vilji heyra meira. Þeir biðja mig um að syngja eitt eða tvö lög í viðbót og vilja fá sendar myndir.“ 

Fyrir mann sem hefur staðið í hljómsveitarstússi frá barnsaldri og eyðir öllum sínum stundum í að sinna tónlist voru þetta ekki litlar fréttir. „Þetta var allt hálf truflað og ég bara hvítnaði upp þegar ég las póstinn,“ segir Einar. 

Heimboð til Los Angeles

Einar fékk svo sendar upptökur frá sveitinni með lögunum „Trippin' on a Hole in a Paper Heart“ og „Interstate Love Song“ sem hann söng inn á daginn eftir og sendi aftur til Los Angeles. „Þá gerðist allt mjög hratt og daginn eftir að ég hafði sent þeim mínar útgáfur fékk ég boð um að koma til Los Angeles, hitta hljómsveitina og fara í áheyrnarprufur.“

Söngur Einars við undirspil STP á laginu „Trippin' on a Hole in Paper Heart“ sem er að finna á plötunni Tiny Music… Songs from the Vatican Gift Shop.

Atburðarásin hljómar eins og góður draumur en þrátt fyrir mikla spennu hjá Einari fyrir þessu skemmtilega tækifæri fylgdu skilmálar um að hann mætti ekki segja frá því nema sínu nánasta fólki. „Stuttu síðar hringdi Dean DeLeo í mig. Við áttum gott spjall og hann sagði mér að þeir væru mjög spenntir fyrir þessu og vildu æfa sjö lög þegar ég kæmi út.“

Tíu dögum áður en Einar átti að mæta í stúdíó hljómsveitarinnar til æfinga fékk hann lagalistann, sem innhélt lög af plötunum Core, Purple og Tiny Music… Songs from the Vatican Gift Shop og við tóku stífar æfingar hjá Einari, sem þekkti lögin þó vel fyrir. 

Gæti æskudraumurinn orðið eitthvað betri, og ef eitthvað er lygilegri, gerðist það svo þremur dögum fyrir brottför þegar Einari var tilkynnt að búið væri að færa æfingarnar í stúdíó sem er í eigu Dave Grohl, aðalmannsins í Foo Fighters og trommarans í Nirvana, sem eru hljómsveitir sem Einar hefur líka hlustað á og haldið mikið upp á frá því að hann var gutti.           

Rokkað með goðunum   

Þegar komið er í stúdíóið blasa við gullplötur uppi um alla veggi fyrir það sem Foo Fighters hefur gefið út og platínuplatan fyrir tímamótaverkið Nevermind sem Nirvana gaf út fyrir 25 árum og Einar heldur sérstaklega mikið upp á (Nevermind hefur þó selst í tæplega 17 milljón eintökum og er demantaplata í Bandaríkjunum). „Ég fékk að fikta aðeins í Neve-borðinu sem Nevermind var tekin upp á, sem var alveg fáránlegt,“ segir Einar, sem rekur sjálfur hljóðver. 

Áður en haldið var inn í æfingaherbergið spjallaði Einar við meðlimi hljómsveitarinnar í klukkustund og hann segir þá hafa verið sérlega áhugasama um Ísland og grínast með að þá langaði til að flytjast hingað þegar þeir fréttu að engin hættuleg dýr væru á landinu. Allan tímann sem Einar var á staðnum voru myndavélar á honum og hljómsveitarmeðlimum fyrir heimildarmynd sem stefnt er að því að gera um ferlið. 

„Það var eiginlega bara súrrealískt þegar við byrjuðum og heyra gítarinn í „Big Empty“ fylla herbergið. Að vera inni í tónlistinni ekki bara horfa á eða hlusta, vera hluti af því.“ Meðlimir sveitarinnar eru engin unglömb, eru allir um og yfir fimmtugt, en Einar, sem sjálfur er afburðagítarleikari, segir að engin þreytumerki sé að heyra á spilamennskunni hjá þeim. „Þeir voru rosalega þéttir og augljóslega búnir að æfa vel fyrir þetta. Lögin voru öll í réttum tempóum og spilagleðin var mikil. Þegar ég var farinn að gefa í og öskra aðeins í fyrsta laginu sá ég bræðurna slammandi og brosandi við hliðina á mér í geðveikum fíling.“ 

 Hér má sjá hvernig um er að litast hjá trymblinum geðþekka í Stúdíói 606. 

Faðmlög og hrós að amerískum sið

Eftir æfinguna fékk Einar faðmlög og hrós að amerískum sið og gekk sáttur við eigin frammistöðu út úr Stúdíói 606, en ekki án þess að skilja eftir eintak af Noise-plötunni Echoes á Neve-borðinu góða í þeirri von að Grohl myndi skella henni á fóninn einn daginn. Enda kominn með reynslu af því að það má láta sig dreyma um ýmislegt.

Í vikunni fékk hann svo símtal frá Dean DeLeo, sem tilkynnti honum að nú stæði valið á milli tveggja annarra söngvara en þakkaði Einari kærlega fyrir allt sem hann hefði lagt á sig í ferlinu og óskaði honum alls hins besta.

Einar segir að augljóslega hefði verið gaman að landa starfinu en segist fyrst og fremst vera þakklátur fyrir þetta litla og ólíklega ævintýri sem hann hafi fengið að upplifa. „Að hafa verið í þriggja manna hópi sem þeir völdu persónulega úr 40.000 umsóknum er líklega mesta hrós sem ég hef fengið sem tónlistarmaður. Þetta var allt bara ótrúlega skemmtilegt.“

Eftir að hafa gefið út fjórar plötur með hljómsveit sinni Noise er Einar farinn að gera tónlist undir eigin nafni og er nýbúinn að gefa út lagið Eventually, sem verður að finna á plötu sem hann ætlar að gefa út á næstunni. 

Einar segist ekki hafa kunnað við að vera mikið með …
Einar segist ekki hafa kunnað við að vera mikið með myndavélina á lofti og þetta er eina myndin sem hann laumaðist til að taka í Stúdíói 606. Ljósmynd/Einar Vilberg.
Stone Temple Pilots var á tímabili ein vinsælasta hljómsveit heims.
Stone Temple Pilots var á tímabili ein vinsælasta hljómsveit heims. Ljósmynd/Jeck M.
Scott Weiland, fyrrverandi söngvari Stone Temple Pilots.
Scott Weiland, fyrrverandi söngvari Stone Temple Pilots. Wikipedia Commons/Michael Dornbierer
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant