„Aron hefur alltaf verið stjarna“

Lagið Þú hefur dáleitt mig var ekki endilega samið með Söngvakeppni Sjónvarpsins í huga heldur frekar sem sumargleðismellur. Þórunn Erna Clausen, einn höfundur lagsins, segir það hins vegar aldrei hafa verið vafaatriði að Voice-stjarnan Aron Brink myndi flytja lagið.

Aron flutti lagið á seinna undanúrslitakvöldi keppninnar síðasta laugardag og komst áfram í úrslitin sem fram fara á laugardaginn í Laugardalshöll. Aron er þó ekki einn á sviðinu heldur með góðan hóp með sér. „Þessi hópur er ofsalega samheldinn og mikil gleði í honum og reynsla. Við erum með tvo aðra Voice-keppendur, frábæra dansara og svo auðvitað Pétur Örn, eina reyndustu bakrödd Íslands,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is en hópinn á sviðinu skipa, auk Arons og Péturs, Rósa Björg Ómarsdóttir, Sigurjón Örn Böðvarsson, Einar Karl Jónsson og Hildur Jakobína Tryggvadóttir. 

Vildu búa til gleðisprengjulag

„Ég sem alltaf textana mína út frá því að fólk geti sett sína eigin sögu í lagið. Grunnskilaboðin og það sem við viljum fjalla um er þegar við lendum öll í sorgum og erfiðleikum í lífinu þarf maður að finna sitt leiðarljós sem hjálpar manni að finna jákvæðnina og gleðina á ný,“ segir Þórunn, beðin um að útskýra textann við lagið. „Í þessu tilfelli er það svolítið ástin en ástin getur átt sér ólíkar myndir, það er ást á fjölskyldu, börnum, vinum, rómantísk ást eða ást á sjálfum sér.“

Lagið verður flutt á ensku á laugardaginn undir titlinum Hypnotised. Þórunn segir titilinn koma frá því hvernig ástin getur dáleitt mann til að hjálpa manni áfram.

Þórunn segir lagið ekki endilega hafa verið samið fyrir Söngvakeppni Sjónvarpsins. „Upphaflega hugmyndin var að semja lag fyrir síðasta sumar en við náðum ekki að klára það. Við höfðum heyrt Can‘t Stop The Feeling með Justin Timberlake og urðum spennt að búa til svona gleðisprengjulag.“

Aron flytur lagið Hypnotised í úrslitum Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn.
Aron flytur lagið Hypnotised í úrslitum Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn. Ljósmynd/Mummi Lú

Alltaf ætlunin að fara alla leið

Aðspurð segist Þórunn vera gríðarlega ánægð með hvernig hópnum tókst til í Háskólabíói á laugardaginn. „Þetta gekk mjög vel og var rosalega gaman. Það var alveg ótrúlegt að finna gleðina, það var allt tryllt í salnum.“

Hún segir að hópnum hafi liðið mjög vel á sviðinu og að flutningurinn hafi heppnast vel. Hins vegar verður hljóðblöndunin skoðuð fyrir laugardaginn þar sem það heyrðist of lágt í bakröddunum. „En myndatakan skilaði sér mjög vel. RÚV stóð sig frábærlega í því,“ segir Þórunn.

Hópurinn hefur að sögn Þórunnar æft atriðið jafnt og þétt síðustu vikur. „Núna erum við að einbeita okkur að því að æfa enskuna betur. En næstu dagar fara að miklu leyti í viðtöl og annað kynningarstarf.“

Spurð hvort hún hafi búist við því að komast í úrslitin segir Þórunn að það hafi alltaf verið ætlunin að fara alla leið. „En ég er ótrúlega þakklát að draumurinn sé að skila sér. Þetta er alltaf óútreiknanleg keppni og erfitt að segja til hvað gerist. En við erum búin að fá rosalega góð viðbrögð.“

Gleðin skín af Aroni

Þórunn bendir á að mörg lönd Evrópu hafi nú þegar valið sér lag til að senda í aðalkeppnina í maí og að þau hafi valið sér hverja ballöðuna á fætur annarri. „Frá Evrópu heyrast því raddir um að það sé verið að bíða eftir að eitthvert land velji sér og sendi gleðisprengju sem myndi skera sig vel úr frá hinum lögunum,“ segir Þórunn. „Við værum alveg til í að fá að dreifa gleði og ást um Evrópu.“

Hún segir það alltaf hafa verið vitað að Aron, sem er stjúpsonur hennar, myndi flytja lagið. „Aron hefur alltaf verið stjarna. Hann er svo hógvær og fallegur í öllu sem hann gerir. Síðan skín svo mikil gleði af honum,“ segir Þórunn.

Aron og lagið Hypnotised verða númer þrjú í röðinni á laugardaginn. Hægt er að kjósa lagið með því að hringja eða senda SMS í númerið 900-9903.

Þórunn Erna Clausen er einn höfunda lagsins.
Þórunn Erna Clausen er einn höfunda lagsins.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler