Ólýsanleg tilfinning að komast í úrslit

„Við erum ósköp róleg í þessu. Við erum öll að vinna okkar vinnu og með lítil börn og svona þannig að okkar plan er aðallega að halda okkur frá flensu og njóta laugardagsins.“ Þetta segir Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir, laga- og textahöfundur lagsins Til mín, sem tekur þátt í úrslitum Söngvakeppni Sjónvarpsins sem fram fer á laugardaginn. 

Eiginmaður Hólmfríðar, Arnar Jónsson, flytur lagið ásamt góðri vinkonu þeirra, Rakel Pálsdóttur. 

Hólmfríður segir ekki mikið um æfingar í vikunni fyrir stóra kvöldið en þó alltaf einhverjar. „Við byrjuðum snemma að æfa og höfum í heildina æft vel. Nú erum við aðallega orðin rosa spennt og glöð að það sé loksins komið að þessu.“

Lagið verður flutt á ensku á laugardaginn og heitir þá Again.

https://www.youtube.com/watch?v=SM792CNcH3w

Mikil tenging í hópnum

Spurð hvernig hópnum leið á sviðinu í Háskólabíói á undanúrslitakvöldinu segir Hólmfríður að öllum hafi liðið mjög vel. „Það er svo mikil tenging í hópnum, við erum öll svo miklir vinir og það var frábær orka á sviðinu. Rakel og Arnari þykir líka mjög vænt um hvort annað sem skilar sér klárlega í þeirra flutningi.

Hún segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við laginu. „Þetta er ekki týpískt Eurovisionlag. Einhverjir álitsgjafarnir gáfu okkur lítinn gaum fyrst og höfðu frekar litla trúa á okkur! En þegar myndbandið við lagið var birt hlustuðu margir betur á lag og texta. Við fengum í kjölfarið meiri athygli og mjög jákvæða,“ segir Hólmfríður en myndbandinu er leikstýrt af Snædísi Snorradóttur. Ég var viss um að það sama myndi líka gerast á sviðinu sem það og gerði.“ Þetta sjónræna skiptir nefnilega ekki síður máli. Það kveikir á tilfinningum fólks og hreyfir betur við fólki.

Hólmfríður segist hafa samið lagið með Arnar og Rakel sérstaklega í huga. „Arnar og Rakel eru allt of góðir söngvarar til að vera ekki meira áberandi. Ég þekki raddir þeirra og raddsvið mjög vel og langaði að gera lag sem sýnir hvað þau geta. Þau eru mikið ballöðufólk og fengu því ballöðu.“

Arnar og Rakel á sviðinu.
Arnar og Rakel á sviðinu. Ljósmynd/Mummi Lú

Sjaldan verið eins stolt

Hólmfríður segir lagið afar sorglegt og að það fjalli um óbærilegan söknuð. „En samt er vonarglæta í laginu, það er hvernig minningarnar ylja,“ útskýrir Hólmfríður og bætir við að lagið gerist að ákveðnu leyti í draumi sem kemur skýrar fram í enska textanum en þeim íslenska.

„Ég var nýbúin að missa afa minn þegar ég samdi þetta lag og var að upplifa ömmu mína í mikilli sorg. Maður getur bara ekki ímyndað sér sársaukann. Textinn fjallar um að reyna að halda lífinu áfram og nota drauma og minningar sér til hjálpar.“

Hún segir það hafa verið ólýsanlegt augnablik þegar lagið komst í úrslitin. „Sérstaklega út af tengingunni innan hópsins. Ég hef tvisvar tekið þátt áður og í bæði skiptin komist í úrslit og þetta er alltaf rosa gaman. En ég hef sjaldan verið eins stolt og þetta kvöld.“

Kynntust í Söngvakeppninni 2014

Hólmfríður og Arnar eru hjón en þau kynntust í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2014. „Hann söng bakraddir fyrir vinkonu sína, Þórunni Ernu Clausen, og við kynntumst í „Græna herberginu“. Hann sá mig þar og segir að þar hafi hann ákveðið að ég yrði konan sín,“ segir Hólmfríður. Hún og Rakel kynntust í sömu keppni þegar þær sungu raddir hjá Gretu Mjöll, systur Hólmfríðar, í laginu Eftir eitt lag.

„Ég hef aldrei hrifist jafnsterkt af rödd,“ segir Hólmfríður um Rakel og bætir við að mikil vinátta hafi skapast á milli þeirra eftir Söngvakeppnina 2014. „Ég á Söngvakeppninni bæði þennan vinskap og hjónabandið mitt að þakka. Það er einstök tenging á milli okkar og væntumþykjan mikil. Við eignuðumst líka báðar barn í lok 2015 og þá varð samgangurinn enn meiri.“

Spurð hvernig hún haldi að þetta fari allt saman á laugardaginn segir Hólmfríður að markmiðið hafi verið að komast í Höllina. Nú er markmiðið að njóta og auðvitað reyna að heilla sem flesta um leið.

„Maður veit náttúrulega aldrei hvað gerist! En það sem við ætlum að njóta og skemmta okkur vel,“ segir Hólmfríður. 

Lagið Again verður annað í röðinni í Laugardalshöllinni á laugardaginn. Hægt er að kjósa lagið með því að hringja eða senda SMS í númerið 900-9902. Hér er hægt að fylgjast með hópnum á Facebook.

Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir, laga- og textahöfundur Til mín.
Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir, laga- og textahöfundur Til mín.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant