„Oft er erfiðara að skrifa stutt“

Hildur Knútsdóttir.
Hildur Knútsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég var mjög upp með mér að vera valin í ár, því það eru svo margir góðir barnabókahöfundar hérlendis,“ segir Hildur Knútsdóttir rithöfundur, sem að beiðni IBBY á Íslandi skrifaði smásögu sem frumflutt verður í öllum grunnskólum landsins í dag, fimmtudag, kl. 9.10 til þess að halda upp á dag barnabókarinnar. Dagur barnabókarinnar er 2. apríl ár hvert, sem er fæðingardagur H.C. Andersen, en þar sem daginn ber í ár upp á sunnudag var ákveðið að hafa sögustundina á fimmtudegi að þessu sinni.

„IBBY á Íslandi hefur sl. sjö ár fagnað deginum með því að færa grunnskólabörnum á Íslandi smásögu að gjöf. Sagan verður samtímis flutt á Rás 1 svo að öll þjóðin getur lagt við hlustir,“ segir í fréttatilkynningu frá samtökunum, en Hildur les sjálf upp söguna til flutnings í útvarpinu.

Merkileg uppgötvun

Smásaga Hildar nefnist „Stjarnan í Óríon“. „Hún fjallar um stelpu sem hefur mikinn áhuga á stjörnum og á stjörnukíki. Dag einn gerir hún merkilega uppgötvun sem vísindasamfélagið stendur á gati gagnvart,“ segir Hildur leyndardómsfull og vill ekki gefa meira upp um innihaldið.

Aðspurð segist hún hafa fengið nokkrar hugmyndir að smásögunni. „Ég var með nokkrar hugmyndir sem reyndust kalla á lengri útfærslu en gat rúmast í þrjú til fjögur þúsund orðum. Smásagan þarf líkt og skáldsaga að hafa inngang, flækju og lausn til að verða heildstæð saga,“ segir Hildur og bendir á að smásagan mátti vera 15-20 mínútur í upplestri. „Oft er erfiðara að skrifa stutt. Ég fékk nokkrar hugmyndir sem voru of langar, en kannski geri ég eitthvað með þær síðar meir,“ segir Hildur, sem fékk árs fyrirvara til að skrifa smásöguna fyrir IBBY á Íslandi.

Gaman að endurnýja kynnin

„Þegar ég var yngri skrifaði ég slatta af smásögum en í seinni tíð hef ég skrifað lengri sögur. Það var mjög gaman að fá aðeins að dusta rykið af smásagnaforminu. Ég held það sé í raun erfiðara að skrifa smásögu en lengri bækur. Formið er knappara, en samt þarf að vera með söguboga í miklu minna rými.“

Hildur hlaut fyrr á árinu Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir nýjustu skáldsögu sína, Vetrarhörkur, en bækur hennar hafa fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga á síðustu misserum. Hún hefur á umliðnum árum skrifað mest fyrir ungmenni, en samkvæmt forskrift frá IBBY á Íslandi er smásagan ætluð lesendum á aldrinum 6-16 ára. „Það er vandasamt að skrifa fyrir svo breiðan aldur og í raun held ég að það sé varla hægt að semja sögu sem hentar fullkomlega fyrir allan þennan breiða aldur. Ég valdi að skrifa um geiminn og stjörnurnar og vona að það sé nokkuð sem allir hafa áhuga á,“ segir Hildur að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson