„Verðlaun eru góður bónus“

Nanna Kristín Magnúsdóttir í París þegar hún tók á móti …
Nanna Kristín Magnúsdóttir í París þegar hún tók á móti verðlaununum.

„Það kom mér skemmtilega á óvart að hljóta aðalverðlaun hátíðarinnar. Ég hélt að myndin kæmi bara til greina sem besta dramatíska stuttmyndin og þegar önnur mynd hlaut þau verðlaun var ég alveg slök þegar tilkynnt var um aðalverðlaunin,“ segir Nanna Kristín Magnúsdóttir sem leikstýrði og skrifaði handritið að Ungum (Cubs) sem á dögunum var valin Besta evrópska myndin úr hópi 73 kvikmynda í öllum flokkum á kvikmyndahátíðin ÉCU –The European Independent Film Festival í París. 

Samkvæmt upplýsingum frá hátíðinni var það samdóma álit dómnefndar að veita Ungum aðalverðlaunin. Í umsögn dómnefndar, sem skipuð er fagfólki í kvikmyndagerð, segir: „Myndin ber framúrskarandi sjálfstæðri kvikmyndagerð gott vitni með því að segja góða sögu einstaklega vel. Að mati dómnefndar er leikstjórinn afar fær í því að segja sögu, hefur gott vald á leikhópi sínum og stórkostlega hæfileika til að skapa tilfinningaleg viðbrögð í frábærri mynd. Við erum sannfærð um að Nönnu bíði stórkostleg framtíð í kvikmyndageiranum og óskum henni velfarnaðar.“

Lærdómsríkt að fylgjast með viðbrögðum áhorfenda

„Þessi verðlaun eru mjög góð fyrir myndina, sem ferðast nú milli ólíkra hátíða,“ segir Nanna Kristín og tekur fram að stundum felist aðalviðurkenningin hreinlega í því að vera valin inn á vandaðar hátíðir. „Þannig voru Ungar valdir inn á hátíðina South by Southwest í Austin í Texas, sem er mjög stór og flott hátíð. Þannig er þetta ekki alltaf spurning um að vinna, þó að það sé auðvitað góður bónus,“ segir Nanna Kristín, en Ungar hafa verið sigursælir á árinu.

Þannig var myndin valin besta íslenska stuttmyndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík (RIFF), hlaut Edduna sem besta stuttmyndin og valin besta íslenska stuttmyndin á Northern Wave kvikmyndahátíðinni í Snæfellsbæ. Í upphafi árs var hún valin besta alþjóðlega stuttmyndin á Flickerfest-stuttmyndahátíðinni í Ástralíu, hlaut áhorfendaverðlaun á FEC-European Short Film Festival á Spáni og sérstakt hrós (e. special mention) frá annars vegar dómnefnd og hins vegar áhorfendum á Internationale Kurzfilmwoche í Regensburg í Þýsklandi í mars.

„Þetta verður verðlaunamynd af því að það er valinn maður í hverju rúmi. Þetta er mikið hæfileikafólk sem ég er svo lánsöm að starfa með,“ segir Nanna Kristín þegar hún er beðin að skýra gott gengi Unga. Í aðalhlutverkum eru Ólafur Darri Ólafsson, Ragnheiður Ugla Gautsdóttir Ocares og Agla Bríet Gísladóttir.

„Fyrir mig sem kvikmyndagerðarkonu er mjög gaman að fara á milli hinna ólíku kvikmyndahátíða og fylgjast með viðtökunum á mynda minna,“ segir Nanna Kristín, sem einnig fylgdi fyrstu stuttmynd sinni sem nefnist Tvíliðaleikur (Playing With Balls) og frumsýnd var í Toronto 2014, eftir á hátíðum, en sú mynd er enn að flakka milli hátíða.

„Það er afar lærdómsríkt að fylgjast með viðtökum áhorfenda og skynja muninn á viðtökum eftir þjóðerni,“ segir Nanna Kristín og viðurkennir fúslega að hún fylgist á sýningum frekar með áhorfendum en myndinni sinni á hvíta tjaldinu. „Ég læri mjög mikið á því líka. Ég hef ekki enn lent í því að áhorfendur fari í símann sinn. Myndin heldur greinilega athygli fólks.“

Ólafur Darri Ólafsson í hlutverki föðurins í Ungum.
Ólafur Darri Ólafsson í hlutverki föðurins í Ungum.

Á tímamótum vegna skilnaðar

Að sögn Nönnu Kristínar leiðir þátttaka í hátíðum stundum til spennandi verkefna. „Þannig var ég t.d. beðin um að koma til Englands í haust og kenna í háskóla þar, sýna myndina mína, tala um hana og kenna kúrs í kvikmyndagerð,“ segir Nanna Kristín, sem sjálf lærði handritagerð í Vancouver í Kanada.

Spurð hvort hún sé farin að leggja drög að næstu mynd segist Nanna Kristín vera að undirbúa sjónvarpsseríu fyrir RÚV sem nefnist Pabbahelgar sem hún bæði skrifar og leikstýrir, en sem stendur er verkefnið í fjármögnunarferli. „Serían fjallar um konu kringum fertugt sem stendur á tímamótum vegna skilnaðar. Hún þarf að hugsa lífið aðeins upp á nýtt. Þetta er svokallað „dramedy“ þar sem reynt er að finna léttu hliðarnar á dramatíkinni án þess þó að þetta sé gamansería.“

Innt eftir því hvernig hugmyndin að Ungum hafi komið til hennar segir Nanna Kristín að hún hafi komið í bútum. „Meginþema myndarinnar snýr að því að dæma hlutina ekki við fyrstu sýn. Annað mikilvægt þema snýr að því að við foreldrar ættum að vera duglegri að hlusta á börnin okkar og gefa þeim tíma í stað þess að einblína á allar hætturnar í kringum okkur,“ segir Nanna Kristín og bendir á að í raun sé það móðirin í myndinni sem gefi dóttur sinni morðvopnið óafvitandi.

Fordómar gagnvart karlmönnum

„Mér finnst gaman að líta á mál sem eru í umræðunni frá öðrum vinkli. Kveikjan að myndinni var atvik sem vinur minn sagði mér frá. Hann er einstæður faðir og á dóttur sem langaði að bjóða vinkonu sinni í heimsókn að gista. Mamma vinkonunnar hringdi í vin minn og bað hann að hitta sig á kaffihúsi til að athuga hvort hann væri traustsins verður, eins og hún orðaði það við hann. Á þessum tíma var ég sjálf einstæð móðir og það sló mig að það myndi enginn biðja mig að sanna að ég gæti séð um börn líkt og hann þurfti að gera. Þarna birtast fordómar gagnvart karlmönnum. Auðvitað lifum við á hættulegum tímum, en við megum ekki vera of hrædd til að treysta náunganum. Það væri hræðilegt ef náungakærleikurinn hyrfi úr samfélaginu. Á sama tíma þurfum við auðvitað að gæta barnanna okkar. Við konur njótum trausts til að sjá um börnin hvort heldur er á heimilinu eða í skólakerfinu, þó að við fáum ekki laun í samræmi við þá ábyrgð og okkur er því miður oft ekki treyst stjórnunarstöður nema þá í skjóli kynjakvótans. Í jafnréttisumræðunni virðist hins vegar stundum gleymast að það hallar líka á karla á sumum sviðum.

Ástæða þess að ég valdi dansinn sem íþrótt var að skapa kontrast milli fágaðrar hreyfinga ballettsins og þess hvernig stúlkurnar dilla sér við dægurtónlist og syngja texta sem þær hafa ekki hugmynd um hvað þýða og eiga ekki að vita hvað þýða. Þetta er meðal stóru pælinganna sem liggja að baki Ungum sem endar svo auðvitað að lokum sem bara lítil saga.“

Ungar var valin Besta evrópska myndin úr hópi 73 kvikmynda …
Ungar var valin Besta evrópska myndin úr hópi 73 kvikmynda í öllum flokkum á kvikmyndahátíðin ÉCU –The European Independent Film Festival í París.

Neitar að láta binda sig á tiltekinn bás

Að sögn Nönnu Kristínar hefur verið lærdómsríkt að sitja fyrir svörum hátíðargesta um Unga. „Áhorfendur virðast skilja myndina eins og ég lagði upp með, sem er auðvitað gaman, en alls ekki sjálfgefið. Ég fæ mikið af spurningum um íslenska kvikmyndagerð og konur í faginu. Það kemur fólki alltaf jafnmikið á óvart að ég sé margra barna móðir og starfandi leikkona samhliða kvikmyndagerðinni, því margir skilja ekki hvernig það sé hægt. Ég er líka oft spurð af því hvers vegna ég sem kona sé að fjalla um karlmann,“ segir Nanna Kristín og tekur fram að hún neiti að láta binda sig á tiltekinn bás.

„Ég lít ekki svo á að konur einar eigi að segja sögur um konur fyrir konur. Auðvitað er mikilvægt að segja sögur kvenna og skrifa bitastæð hlutverk fyrir leikkonur. Við konur getum hins vegar sagt alls konar sögur og ég vil hafa fullt frelsi til að segja þær sögur sem mig langar til,“ segir Nanna Kristín. Þess má að lokum geta að Ungar eru aðgengilegir í Sarpi Sjónvarpsins til 14. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant