„Enginn getur bjargað mér núna“

Chester Bennington var einlægur í öllu því sem hann tók …
Chester Bennington var einlægur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Tónlistin átti hug hans og hjarta.

Chester Bennington, forsöngvari Linkin Park, hengdi sig á heimili sínu í gær, rétt eins og náinn vinur hans, Chris Cornell, gerði í maí. Svo vill reyndar til að Cornell hefði orðið 53 ára í gær.

Bennington hafði talað opinskátt um áfengis- og fíkniefnavanda sinn sem og kynferðisofbeldi sem hann varð fyrir sem barn. Hann hafði lýst því í viðtölum hvernig hann hafði gert tilraunir til að svipta sig lífi.

Bennington var 41 árs. Hann var tvíkvæntur og átti sex börn. Hann bjó í Los Angeles og var fjölskylda hans að heiman er hann svipti sig lífi.

Vicky, eiginkona Cornells, skrifaði á Twitter í gær að fréttirnar um andlát vinar síns Benningtons kæmu á tíma sem hún taldi að hjarta sitt myndi ekki þola meira álag.

Linkin Park átti fjölda vinsælla laga í gegnum árin, m.a. Faint, In the End og Crawling. Hljómsveitin var þekkt fyrir að hætta sér inn á ókönnuð svæði tónlistarsviðsins og vann með mörgum ólíkum listamönnum, m.a. Jay-Z. Í nokkur ár var Bennington einnig söngvari sveitarinnar Stone Temple Pilots.

Nýjasta plata Linkin Park, sú sjöunda í röðinni á átján ára ferli hennar, bar þess að mati tónlistarspekinga glögg merki að Bennington væri að heyja erfiða orrustu við djöfla sína. Í texta titillags hennar, Nobody Can Save Me Now, segir meðal annars: Ég er að dansa við djöfla mína, ég hangi á bjargbrúninni, enginn getur bjargað mér núna.

Textar Benningtons og Mikes Shinoda, hljómborðsleikara Linkin Park, voru ætíð nokkuð persónulegir og höfðuðu til aðdáendahópsins. Sveitin var stofnuð í Los Angeles árið 1996 og naut þar vinsælda. Útgáfufyrirtækin voru þó ekki eins spennt og nokkur þeirra höfnuðu sveitinni þar til Warner Bros. gerði loks samning við hana árið 1999.

Líkt og oft gerist var reynt að flokka tónlist Linkin Park. Hún var ekki sögð þungarokk heldur nýrokk og sett í hóp með sveitum á borð við Korn. Piltarnir sem skipuðu sveitina voru á öðru máli og vildu fá sérkenni sín viðurkennd. Árið 2000 kom fyrsta platan út, Hybrid Theory, og vísaði nafnið að mati tónlistarspekinga í einmitt þessa umræðu; Linkin Park flutti tónlistarblöndu af ýmsum straumum og stefnum.  

Tónlistarferillinn var frá stofnun nokkuð beinn og breiður. Á honum voru fáir hnökrar, að minnsta kosti út á við. Nýjasta platan, One More Light, er sú sjötta sem skilar sér í toppsæti Billboard-listans. Aðeins fáir hafa náð þeim áfanga.

Vinsældir Linkin Park gerðu Bennington einnig kleift að kanna ný mið meðfram starfinu með sveitinni. Hann vann t.d. með Chris Cornell  og vinum sínum í Stone Temple Pilots um hríð. Þá samdi hann tónlist við kvikmyndina Queen of the Damned. Einnig gerði hann eina plötu með hljómsveit sem kallar sig Dead by Sunries, og árið 2010 vann hann með Santana og Ray Manzarek að ábreiðu lagsins Riders on the Storm eftir Doors.

Á sama tíma fór hann ítrekað í tónleikaferðalög um heiminn með Linkin Park.

Bennington og félagar voru óhræddir við að kanna ný mið og gerðu það án þess að vera hafnað af aðdáendum sínum. Sem dæmi um slíkt má nefna plötuna A Thousand Suns þar sem sungið var um hættur sem vofa yfir mannkyninu, svo sem kjarnorkustyrjaldir.

Tónlist Linkin Park tók því stöðugum breytingum og sveitin hélt sig aldrei við „formúluna“ sem útgefendurnir þráðu. Aðdáendurnir fylgdu straumnum og uxu úr grasi í takt við tónlistina.

Munum aldrei skilja af hverju

Bennington talaði opinskátt til aðdáenda sinna um eiturlyfjafíkn og baráttuna við að halda sér edrú. Hann sagði frá AA-fundum sem hann sótti og tólf spora kerfinu. Þeir sem þekkja hann segja að þrátt fyrir þessi erfiðu vandamál hafi hann haldið einbeitingu í tónlistinni og verið hugulsöm og hjartahlý manneskja. „Chester Bennington var opinn og skapandi listamaður,“ sagði Roxy Myzal, framleiðandi og útvarpsmaður, er hann heyrði um andlát tónlistarmannsins. „Þó að við munum aldrei skilja af hverju þá er það mikilvægasta núna að við tökum okkur tíma til að sinna þeim sem eru að berjast við eiturlyf og áfengi í augnablikinu.“  

Einn af hápunktum ferils Benningtons var að fá að leiða hljómsveit sem hann hafði dýrkað lengi, Stone Temple Pilots. Hann virtist passa vel inn í þann hóp og söng með sveitinni í tvö ár, 2013-2015, en fór þá alfarið að einbeita sér að Linkin Park á ný.

Ekki var annað að sjá en Bennington væri hamingjusamlega giftur seinni konu sinni, Talindu Ann Bentley, og hefði síðustu árin einbeitt sér enn frekar að fjölskyldulífinu og börnunum sínum sex. Margir töldu að hann hefði haft betur í baráttunni við fíknina. Hann sagði nýlega í viðtali um nýjustu plötuna að textarnir fjölluðu um von og um að horfa fram á veginn.

Það er líklega engin tilviljun að Bennington svipti sig lífi á afmælisdegi vinar síns Chris Cornells. Sjálfsvíg hans í maí hafði snert verulega við Bennington. Hann flutti lag Leonards Cohens, Hallelujah, við minningarathöfnina um Cornell og skrifaði í minningarorðum sínum: „Rödd þín lýsti gleði og þjáningu, reiði og fyrirgefningu, ást og hjartasári. Ég held að þannig séum við öll. Þú hjálpaðir mér að skilja það.“

Textinn við Sharp Edges, eitt vinsælasta lag nýjustu plötunnar, fangar þessa von sem Bennington bjó í brjósti: Við hrösum öll. Við lifum einhvern veginn af. Við lærum að það sem drepur okkur ekki gerir okkur sterkari.

 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson