Dauðakoss fyrir ímynd Streep?

Meryl Streep er ein virtasta leikkona Hollywood en hrapar nú …
Meryl Streep er ein virtasta leikkona Hollywood en hrapar nú í vinsældum. AFP

Óskarsleikkonan og Hollywood-drottningin Meryl Streep hóf árið 2017 með því að leiða kór andstæðinga Donald Trump Bandaríkjaforseta en tólf mánuðum síðar er hún sjálf orðin skotmark.

Streep, sem er 68 ára gömul, sætir nú gagnrýni fyrir að neita því að hafa vitað af hegðun kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein sem sakaður hefur verið um að skilja eftir sig slóð kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn konum í bransanum.

Streep hefur komið að fjölmörgum kvikmyndum í framleiðslu Weinstein og kallaði hann meðal annars „Guð“ í gríni á Golden Globe-verðlaununum árið 2012.

Streep á magnaðan leikferil að baki og er ein virtasta leikkona Hollywood og þótt víðar væri leitað. Hún á 20 Óskarstilnefningar að baki og hefur unnið styttuna gylltu þrisvar sinnum, síðast fyrir að leika Margaret Thatcher í kvikmyndinni The Iron Lady sem dreift var af fyrirtæki Weinstein. Þegar tíma verðlaunahátíða bar síðast að garði var það hins vegar baráttuandi hennar, fremur en leikhæfileikarnir sem urðu forsíðufóður en hún var lofuð í hástert, og einnig gagnrýnd, fyrir ræðu á Golden Globe-verðlaunahátíðinni þar sem hún fordæmdi Trump.

Augu heimsins beindust aftur að Streep í kjölfar fyrstu frétta af Weinstein málinu í október, þegar Streep sagði málið skelfilegt en að hún hefði aldrei heyrt af því áður. Sú neitun hefur vakið nokkra tortryggni, sérstaklega meðal baráttufólks innan #MeToo-byltingarinnar svokölluðu  gegn kynferðislegri áreitni. Hópurinn er nefnilega á því að þeir sem næst stóðu Weinstein hafi viljandi leitt hegðun hans hjá sér.

Harvey Weinstein og Meryl Streep í janúar 2012.
Harvey Weinstein og Meryl Streep í janúar 2012. AFP

Þögn og hræsni

Einn helstu forsprakka hreyfingarinnar og meint fórnarlamb Weinstein, Rose McGowan, gagnrýndi Streep í tísti, sem nú hefur verið eytt, vegna fyrirætlana um að leikkonur mæti svartklæddar á Golden Globe og mótmæli þannig kynferðislegri áreitni með þöglum hætti.

„Þögn þín er vandamálið. Þú tekur á móti gerviverðlaunum án þess að anda frá þér og stuðlar ekki að neinum alvörubreytingum. Ég fyrirlít hræsni þína,“ tísti McGowan.

Steep svaraði með langri yfirlýsingu sem Huffington Post birti á mánudaginn, þar sem hún sagðist ekki hafa vitað af glæpum Weinstein, „ekki á tíunda áratugnum þegar hann réðst á McGowan eða á áratugunum sem fylgdu þar sem hann hélt áfram að ráðast á aðra.“

Þessi nýja neitun hefur þó ekki þaggað niður í gagnrýnisröddunum og á þriðjudag birtist u.þ.b. tylft veggspjalda í Los Angeles sem sögðu Streep „kóa“ með Weinstein, sem enn neitar öllum ásökunum.

49 ára skæru-listamaður, Sabo, hefur lýst yfir ábyrgð á veggspjöldunum sem sýna Streep með rauðan borða yfir andlitið með textanum „Hún vissi“. Hann kveðst hafa hugsað herferð sína upp sem andsvar gegn notkun Streep á nýjustu kvikmynd hennar, The Post, gegn Trump. Trump hefur sjálfur verið sakaður um kynferðislegt ofbeldi af í það minnsta 16 konum.

Blaðamaðurinn Ira Madison III hjá Daily Beast er meðal þeirra sem hefur tjáð sig um málið. Segir hann þá útreið sem Streep hefur fengið vegna Weinstein einmitt holdgerving þeirrar kynjamismununar sem er svo innbyggð í bransann.

„Hér erum við, að ráðast á konu fyrir það sem hún vissi kannski, þegar allir virðast fastir á því að allir í bransanum hafi vitað,“ skrifaði hann. „Hvernig stendur þá á því, að George Clooney eða Brad Pitt hafi ekki orðið fyrir jafngrimmilegum árásum og Streep? Hví ekki Bob Weinstein, bróðir hans, sem hefur varla skrámast af falli Harvey?“

Rose McGowan ásamt upphafskonu #MeToo-herferðarinnar Tarana Burke.
Rose McGowan ásamt upphafskonu #MeToo-herferðarinnar Tarana Burke. AFP

Almenningur neikvæðari í garð Streep

Jeetendr Sehdev, sérfræðingur í markaðssetningu stjarnanna, gerir kannanir tvisvar á ári um ríka og fræga fólkið meðal 2.000 manns sem valdir eru af handahófi frá öllum ríkjum Bandaríkjanna.

Hann segir 58 prósent þeirra sem rætt var við í október um Weinstein-málið nú hafa neikvæðar tilfinningar í garð Streep, vegna neitana hennar í upphafi.

„Fullyrðingar Streep um að hún hafi ekki vitað af þessu eru út í hött og dauðakossinn fyrir ímynd hennar í Hollywood,“ sagði Sehdev við AFP. Hann sakar Streep um að vanmeta almenning og hugrekki kvenkyns jafningja sinna sem hafa hafið upp raust sína gegn Weinstein. Þá bætir hann því við að Clooney þurfi einnig að svara fyrir eigin viðbrögð við hneykslinu.

„Streep þarf að biðja aðdáendur sína afsökunar fyrir að segja ekki sannleikann. Og hugsanlega útskýra hvaða þrýsting hún hafi upplifað til að gefa út svona yfirlýsingu til að byrja með,“ sagði hann.

„Margir gera ráð fyrir að Weinstein leiti til náinna vina sinna til að sjá hvort þeir muni tala hans máli og reyna að minnka skaðann. Voru Streep og Clooney hluti af því?“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler