Þessa dagana berast margar sérkennilegar fréttir frá Bandaríkjunum sem flestar tengjast forseta þeirra. Reglur og framkoma þegna þessa gamla stórveldis virðast einnig vera farnar að litast af furðulegum áherslum þjóðarleiðtogans.
Þetta reyndi Sam Panda, þekkt amerísk loftfimleikastjarna, á eigin skinni á dögunum. Hún var handtekin, færð í handjárn og flutt á lögreglustöð fyrir það eitt að klæðast g-streng og baðfatatoppi á strönd í Suður-Karólínu.
Lögreglunni barst kvörtun frá öðrum baðgesti sem taldi klæðaburð Panda í ósamræmi við reglur ríkisins um baðfatnað. Panda, sem var í baðfatatoppi og g-streng, var því umsvifalaust handtekin og færð á lögreglustöð og má búast við sekt. Hún hefur brugðist við þessu á samfélagsmiðlum og bendir á að kærandinn, kona ásamt 15 ára dóttur sinni, hafi með þessu kennt unglingnum að líkami kvenna væri eitthvað sem ætti að skammast sín fyrir. Að skilaboð hennar til dóttur séu að klæðaburður kvenna geti verið þannig að konur beri ábyrgð ef og þegar menn ráðast að þeim og misnoti. Hvað sem um það má segja þá er ljóst að ef sama viðmið ætti við á Íslandi þyrfti lögregla að ráðast í fjöldahandtökur í öllum sundlaugum landsins alla daga ársins þar sem efnislitlar baðfatabuxur njóta mikilla vinsælda hérlendis.