Nadía Sif Líndal Gunnarsdóttir, önnur kvennanna sem heimsóttu ensku landsliðsmennina Phil Foden og Mason Greenwood á Hótel Sögu um helgina, segist vera komin með upp í kok af því hvernig sé talað um hana og Láru Clausen í athugasemdakerfum.
Í færslu á Facebook segir Nadía að þessar athugasemdir séu virkilega ógeðslegar. „Virkilega fallegt hvernig fullorðið fólk talar um 20 og 19 ára gamlar stelpur. Við gerum okkur fulla grein fyrir öllu og tek það aftur fram, nei, við vissum ekki að þeir væru í sóttkví og er ekki nóg að hafa liggur við allt Bretland að kenna okkur um þetta allt og hrauna yfir okkur?
Að halda fram vændi og fleira með 20 og 19 ára gamlar stelpur er langt frá því að vera í lagi og hvað þá að koma frá fólki sem á börn og barnabörn. Við höfum ekkert sagt nema að við vorum að hanga saman og spjalla. Virkilega ógeðslegt. Er komin með upp í kok, þurfti að segja einhvað.“
Með færslunni birti Nadía skjáskot af athugasemdum úr athugasemdakerfum íslenskra fjölmiðla þar sem þær eru kallaðar hálfvitar og athyglissjúkar.
Breski slúðurmiðillinn
The Sun hefur einnig fjallað um málið enda snertir það landsliðsmenn Englands. Á The Sun í dag er að finna grein um Nadíu undir fyrirsögninni „BREAK THE ICE: Who is Icelandic model Nadia Sif Lindal Gunnarsdottir?“ eða „Ísbrjóturinn: Hver er íslenska fyrirsætan Nadía Sif Gunnarsdóttir?“