Níu ferðamenn slösuðust í Japan þegar asískur svartbjörn réðist á þá. Ferðamennirnir voru staddir við stoppistöð í fjallahéraði í Mið-Japan. Björninn var að lokum skotinn af veiðimönnum.
Hin hryllilegu augnablik árásarinnar náðust á kvikmynd en einn viðstaddra var með upptökuvél. Einhverjir viðstaddra horfðu á þegar björninn kastaði ferðamanni í jörðina þar sem björninn klóraði hann svo og beit.
Ferðamenn og starfsfólk minjagripaverslunar sem þarna er flúðu í skelfingu undan birninum sem réðist á alla sem urðu á vegi hans. Níu manns slösuðust þar af fjórir alvarlega.
Fólkið lokaði sig inni í rútu sem þarna var.
Björninn var að lokum skotinn af veiðimönnum eftir að hann hljóp gegnum stoppistöðina og inn í minjagripaverslunina þar sem starfsfólk lokaði hann inni.
Ekki liggur fyrir hvers vegna æði rann á björninn.