Fangarnir dansandi í öryggisfangelsinu á Filippseyjum hafa endurtekið leikinn. Enn á ný hefur myndband með hópdansi þeirra í fangelsisgarðinum við tónlist Michael Jackson slegið í gegn á internetinu. Nú er það reyndar með öðrum hætti en áður, því í þetta skiptið fengu þeir heimsókn frá danshöfundi Michael Jackson sem samdi með þeim dansspor við lög úr myndinni This is it sem kom út eftir dauða hans.
Myndbandið er því í betri gæðum en fyrri dansmyndbönd fanganna, enda er það framleitt af Sony Entertainment sem liður í útgáfu heimildamyndarinnar „This is it“, um síðasta tónleikaferðalag poppkóngsins sem aldrei varð af. Myndbandið var sett inn á föstudag og hefur þegar verið skoðað 850 þúsund sinnum.
37 milljónir hafa horft á Thriller dansinn
Danshöfundur Jacksons sjálfs, Travis Payne, leiðir í myndbandinu dans 1.200 fanga sem klæddir eru appelsínugulum fangelsisklæðnaði að neðan, en að ofan hafa þeir fengið stuttermaboli sem merktir eru DVD disknum sem kemur út í lok vikunnar. Að sögn Sony varði Payen tveimur mánuðum í öryggisfangelsinu til að æfa dansinn.
Sumir myndu því segja að filippseysku fangarnir hafi orðið markaðsöflunum að bráð, en innlifun þeirra í dansinum hefur ekki dvínað. Fangarnir öðluðust upphaflega heimsfrægð árið 2007 þegar sett var á netið myndband sem sýnir þá dansa við "Thriller", einn frægasta smell Jackson. Thriller myndbandið hefur síðan verið skoðað 37,5 milljón sinnum á myndbandavefnum YouTube og fleiri myndbönd fylgt í kjölfarið, þ.á.m. með dansi til heiðurs poppkónginum sem tekið var upp aðeins 10 klst. eftir að föngunum barst andlátsfregnin í júní í fyrra.
Yfirmenn fangelsisins hófu danskennslu sem tilraun til að stilla til friðar innan veggja fangelsisins, bæta samskipti fanganna og tækifæri þeirra til endurhæfingar. Bæði fangaverðir og fangarnir sjálfir hafa sagt að verkefnið hafi skilað frábærum árangri, þar sem slagsmálum meðal fanga hafi fækkað verulega síðan þeir byrjuðu að dansa.
Nýja myndbandið má sjá hér