Tævanskur maður sem ekki hefur átt sjö dagana sæla í kvennamálum hefur tekið til þess ráðs að kvænast gyðju einni úr taóisma, eftir að hún birtist honum í draumi og fyrirskipaði honum að giftast sér.
Maðurinn, sem aðeins er nafngreindur undir ættarnafni sínu, Lin, heldur því fram að Lótus-álfurinn, gyðja í goðafræði taóismans, hafi byrjað að birtast honum í draumum eftir að hann fór í musteri helgað hennar til að fá blessun hennar eftir nokkur misheppnuð ástarsambönd. Sagt var frá þessu á sjónvarpsstöðinni CTS.
Gyðjan sagði manninum fljótlega að giftast sér og til að óhlýðnast því ekki hélt hinn fertugi Lin brúðkaupsveislu þar sem ung kona sem hélt á styttu af gyðjunni kom í stað brúðarinnar sjálfrar. Lin skrifaði undir hjónabandssáttmála og gaf styttunni hring við athöfnina, sem var haldin við musterið, sem hafði verið skreytt með rauðum borðum í tilefni dagsins.
Eftir brúðkaupið flutti Lin styttuna heim til sín til að tilbiðja hana og heldur því fram að eftir þetta hafi „eiginkona” hans verndað hann fyrir bæði sjúkdómum og slysum.