Ástralskur öldungadeildarþingmaður hefur beðist afsökunar á ummælum sem féllu í morgunútvarpi þar sem hún sagðist aðeins hafa áhuga á karlmönnum sem væru ríkir og með mikið undir sér. Hún segist hafa reynt að slá á létta strengi til að breiða yfir hversu vandræðaleg henni þótt umræða um að hún hefði ekki verið í sambandi í rúman áratug.
Þingmaðurinn, Jacqui Lambie, tók sæti í öldungadeildinni fyrr í þessum mánuði og mætti af því tilefni í viðtal á útvarpsstöðinni Heart 107.3 í Tasmaníu í morgun, þar sem tilhugalíf hennar barst í tal og lagði útvarpsmaðurinn það til að stöðin hjálpaði henni að finna ástina.
Lambie brást þá við með því að segja: „Ja, viðkomandi verða þá að hafa stæður af peningum og vænan pakka milli lappanna, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Og ég þarf ekkert á því að halda að þeir tali, þeir þurfa ekki einu sinni að tala.“
Ungur karlmaður sem hlustaði á þáttinn brást við með því að hringja og lýsa því yfir að hann mætti skilyrðum þingmannsins, því hann hefði erft væna summu og hefði reynslu af eldri konum. Lambie, sem er 43 ára, sagðist á móti hafa efasemdir vegna þess að hann væri of ungur. „Ég er ekki viss um að þú réðir við Jacqui Lambie,“ sagði þingmaðurinn, sem gegndi áður hermennsku í áratug.
„Ertu vel vaxinn að neðan?“ spurði hún svo og hlustandinn svaraði að bragði: „Eins og asni.“ Ekkert varð þó úr því að þau mæltu sér mót, þótt útvarpsmaðurinn reyndi að ýta undir það, og þegar símtalinu lauk sagðist Lambie hlæjandi hafa þessi áhrif á karlmenn.
Eftir á baðst hún afsökunar á ummælum sínum í þættinum, þar sem hún mátti líka sitja undir röð af spurningum um það t.d. hvort og hvernig hún rakaði líkamshár sín á leggjum, handarkrikum og kynfærasvæði.
„Þegar Kim og Dave á Heart FM 107.3 spurðu mig um ástalíf mitt í morgun, á léttu nótunum, reyndi ég að breiða yfir vandræðalegheitin með því að segja brandara,“ útskýrði þingmaðurinnn. „Margir hlóu, en einhverjum kann að hafa fundist þetta særandi.“