Lögregla í Bretlandi rannsakar nú hvort John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, hafi brotið lög með því að hafa kynmök í vinnutímanum við einkaritara sinn á skrifstofu sinni í Whitehall Það var skoskur lögreglumaður á eftirlaunum, sem kærði Prescott eftir að einkaritarinn sagði í fjölmiðlaviðtölum að þau Prescott hefðu oft átt ástarfundi á skrifstofu hans.
Prescott hefur viðurkennt að hafa fyrir nokkrum árum átt í ástarsambandi við Tracey Temple en segir að lýsingar hennar á sambandinu séu ekki allar sannleikanum samkvæmar.
Alistair Watson, fyrrum lögreglumaður í Glasgow, sendi kærubréf til Scotland Yard. Kaflar úr kærubréfinu eru birtir í Sunday Times í dag en þar vísar Watson í mál gegn lögreglumanni í Manchester, sem þurfti að afplána 200 stunda samfélagsþjónustu eftir að hann varð uppvís að því að hafa haft samfarir við konu þrívegis þegar hann átti að vera í vinnunni.
Watson segir, að fyrst slíkar reglur gildi um venjulegt fólk þá eigi þær einnig að gilda um John Prescott. Hann telji því ástæðulaust að þau Prescott og Temple eigi að sleppa við saksókn. Þá eigi að svipta Temple greiðslum, sem hún hlaut fyrir að segja fjölmiðlum sögu sína, öðrum ríkisstarfsmönnum til viðvörunar.