Tugir fjölskyldna hafa orðið að yfirgefa heimili sín í miklum rigningum sem nú ganga yfir Massachusetts fylki í Bandaríkjunum. Rigningarnar hafa komið af stað flóðum svo flætt hefur yfir þjóðvegi og ferðast fólk um á bátum. Veðurfræðingar segja að rigningarnar muni aukast enn og gætu orðið að mestu flóðum sem sést hafa á Nýja Englandi síðan árið 1936.
Neyðarástandi hefur þegar verið lýst yfir í New Hampshire í Massachusetts og York-sýslu í Maine fylki, en búist er við að ástandið muni versna mjög. Óttast er að allt að 15 ár geti flætt yfir bakka sína með hækkandi vatnsyfirborði og hrundið af stað enn frekari flóðum. Búist er við að yfirborð Merrimack árinnar, sem liggur á milli New Hampshire og Massachusetts, geti risið um allt að þrjá metra yfir flóðamörk og flætt yfir borgirnar Lawrence og Lowell, norðan við Boston. Þá er verið að rýma svæði neðan við Milton í New Hampshire þar sem búist er við að stífla geti brostið og valdið flóðbylgju.
Eigendur verslana og fyrirtækja á hættusvæðinu hafa staflað sandpokum við hús sín til að koma í veg fyrir skemmdir, auk þess sem opinberum stofnunum hefur víða verið lokað. Fregnir hafa borist af bílum sem strandað hafa á vegum sem flætt hefur yfir en engin slys á fólki hafa verið tilkynnt.