Peres orðaður við forsetaembættið enn á ný

Símon Peres, aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, situr hér fremstur ásamt Ehud Olmert, …
Símon Peres, aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, situr hér fremstur ásamt Ehud Olmert, forsætisráðherra, Tzipi Livni, utanríkisráðherra og Amir Peretz varnarmálaráðherra á ísraelska þinginu í gær. AP

Mikið er nú rætt um það í Ísrael hver muni verða næsti forseti landsins eftir að Moshe Katsav forseti lýsti því yfir að hann muni líklega segja af sér embætti verði lögð fram ákæra á hendur honum. Hefur friðarverðlaunahafinn Símon Peres verið nefndur í því sambandi en hann tapaði kosningu um embættið á ísraelska þinginu árið 2000. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Peres, sem nýtur virðingar á alþjóðavettvangi en er afar umdeildur í Ísrael, var í gær tilnefndur forsetaframbjóðandi Verkamannaflokksins. Reuven Rivlin, fyrrum forseti þingsins, var tilnefndur frambjóðandi Likud flokksins en Kadima-flokkurinn, sem leiðir ríkisstjórnina, hefur ekki tilnefnt frambjóðanda sinn. Rivlin mun njóta mikilla vinsælda meðal þingmanna allra flokka og heimildarmenn Ha’aretz segja forsvarsmenn Kadima hallast að því að styðja hann fremur en Peres þar sem þeir óttist að erfitt verði að ná fram sátt um Peres á þinginu.

Þá þykir líklegt að rabbíninn Yisrael Meir Lau og Colette Avital, þingmaður Likud-flokksins, muni sækjast eftir embættinu.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hefur neitað að tjá sig um málið og segir óviðeigandi að ræða það fyrr en niðurstaða er fengin í máli Katsav.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert